Fréttir

Körfubolti | 13. febrúar 2007

Slakt í Seljaskóla

Það hefur oft reynst okkur Keflvíkingum þungur róður að sækja sigur í Seljaskóla og í kvöld var engin breyting þar á. Reyndar voru upphafsmínúturnar ágætar, en fljótlega kom stífla í sóknarleikinn og heimamenn náðu í öðrum leikhluta forskoti sem dugði út leikinn. Í hálfleik var munurinn níu stig, fór upp í 19 stig, aftur niður í sex og endaði í 15 stigum, 96-81.

Á þeim kafla sem okkar menn voru með yfirhöndina þá var vörninn góð, ekki síst pressan og margar auðveldar körfur fylgdu í kjölfarið. En þegar við vorum ekki hraðupphlaupum og ÍR-ingar náðu að stilla upp vörn sinni, þá var fátt um fína drætti.

Magnús var atkvæðamestur, að vanda, skoraði 21 stig, en virkaði engu að síður frekar hógvær í leiknum. Aðrir voru ekki að skjóta á körfuna, nema helst Arnar, en skot hans náðu ekki að rata rétta leið. Ráðaleysi var töluvert í sókninni. Jonni var ágætur, en fékk eins og svo oft áður fimm villur, en það er ósiður sem hann verður að leggja af ef við eigum að komast eitthvað áfram í úrslitakeppninni.

Sebastian var klaufskur og lítil ógn var yfirhöfuð í okkar leik, ef frá eru skildar þær mínútur sem Sverrir náði að gíra liðið upp í pressuvörn. Vissulega var liðið Kanalaust, en samt áttu menn kannski von á því að við gætum veitt heimamönnum í Breiðholtinu alvöru mótspyrnu. Vonandi mun nýji Kaninn, Tim Harris, efla leik okkar manna og ekki síst bæta áræðni og kraft í sóknarleikinn.

Enn eru fimm umferðir eftir í deildinni og nú er orðið nokkuð ljóst að við munum hefja úrslitakeppnina á útivelli, nema til komi óvæntir ósigrar okkar helstu keppninauta. Markmið okkar næstu vikurnar er að slípa saman liðið og vonandi náum við að verða betri og betri eftir því sem líður á leiktíðina. Enn er von!

ÁFRAM KEFLAVÍK!