Fréttir

Körfubolti | 11. maí 2006

Smá pælingar um körfubolta í kjölfarið á nýafstöðnu þingi KKÍ

Nú er enn einu ársþingi KKÍ nýlokið. Að þessu sinni fór það fram í Rimaskóla og stóðu Fjölnismenn vel að allri framkvæmd. Vil ég nota tækifærið og óska öllum sem kosningu hlutu í embætti á vegum KKÍ til hamingju, með von um að stjórnarseta þeirra stuðli að framförum, okkur öllum til heilla.

Eins og oft áður var tekist á um nokkur mál á þinginu, helst í tengslum við fjölda útlendinga, en að mestu leyti voru menn sammála um atriði sem breyta ætti til betri vegar. Þar báru hæst líklega ýmis málefni sem tengjast yngri flokkum sem og dómaramál. Sérstaklega ber að minnast á sjóð sem ákveðið var að koma á laggirnar um menntun og eflingu dómarastéttarinnar. Vonandi hafa þingfulltrúar tekið skynsamlegar ákvarðanir, sagan mun dæma um það.

Tvær breytingar voru gerðar sem snerta keppni í meistaraflokkum, sú fyrri að fyrirtækjabikar KKÍ, sem nú heitir Powerade bikarinn, var umturnað, ef svo má segja. Mótið hefur verið stytt verulega og leikjum fækkað. Næsta haust mun Powerade bikarinn vera á dagskrá áður en Íslandsmótið hefst með þátttöku þeirra 12 félaga sem leika munu í Iceland Express deildinni. Seinni breytingin er sú að í undanúrslitum í 1. deild kvenna þarf nú að vinna þrjá leiki í stað tveggja áður til að komast í úrslit. Vonandi er hér um framfaraskref að ræða, en eins og í svo mörgum svona málum er erfitt að sjá fyrirfram hver niðurstaðan verður.

En mig langar hér í nokkrum orðum að fjalla um stöðu körfunnar á Íslandi og víkja þá sérstaklega að keppni í efstu deild karla og kvenna. Nýlokið er úrslitakeppni sem tókst að mestu leyti vel, fullt af áhorfendum, mikið fjör og mikil spenna. Njarðvíkingar stóðu uppi sem verðskuldaðir sigurvegarar eftir harða keppni við Skallagrím sem kom allra liða mest á óvart. Haukarnir unnu kvennadeildina í fyrsta sinn, eftir frábært uppbyggingarstarf sem er farið að bera ávöxt.

Það fór hins vegar óskaplega í taugarnar á mér að sjá misræmið í blaði allra landsmanna, Mogganum, að Njarðvíkingar fengu eina (!) blaðsíðu, ekki opnu, ekki forsíðu, í íþróttakálfi blaðsins, þegar fjallað var um meistarana. Skömmu síðar urðu Framarar Íslandsmeistarar í handbolta og um þá var fjallað á tveimur opnum, auk forsíðu íþróttablaðsins. Af hverju þetta misræmi? Fimm blaðsíður á móti einni! Af hverju fáum við ekki sömu umfjöllun og handboltinn? Mér finnst það glatað. En ég ætlaði hér ekki að fara að væla um áhugaleysi Moggans, heldur að líta í eigin barm og fjalla um hvað við þurfum að gera til að koma körfunni á þann stall sem við viljum hafa hana. Varð samt að minnast á þetta.

Körfubolti er ein af stærstu íþróttagreinum heimsins. Í Bandaríkjunum er hann ein af þremur “stóru” greinunum, auk amerísks fótbolta og hafnarbolta. Í Evrópu er hann afar stór og trekkir að fjölda áhorfenda, t.d. í Grikklandi, Frakklandi, á Spáni, Ítalíu, í Serbíu, Króatíu, Rússlandi, Þýskalandi og víðar. En á Íslandi höfum við ekki náð að gera greinina eins stóra og við viljum. Áhorfendum hefur ekki fjölgað í háa herrans tíð og nú er svo komið, sérstaklega í deildarkeppninni, að algengt er að sjá um og undir eitt hundrað hræður koma á leik. Reyndar á það við um handboltann líka, en það bætir ekki okkar skap. Þetta er skelfilegt. Að vísu er úrslitakeppnin frábær og trekkir vel að, Evrópukeppnin líka, en að öðru leyti er staðan slök. Deildarkeppnin er afar döpur, út frá fjölda áhorfenda séð, og meira að segja höfum við ekki náð að fylla Laugardalshöllina í Bikarúrslitum í mörg ár. Þetta er dapurleg staðreynd.

Árið 1992 var ákveðinn hápunktur í körfunni á heimsvísu. Draumaliðið á Ólympíuleikunum á Spáni og Michael Jordan að trylla heiminn. Á Íslandi varð vaxtarkippur í kjölfarið, en við höfum ekki náð að byggja á þessum vinsældum til frambúðar. Af hverju ekki? Og hvað er til ráða? Okkur hefur frekar farið aftur en fram.

Mig langar að benda á tvennt sem ég tel að hreyfingin verði að íhuga. Í fyrsta lagi er það stjórnskipulagið okkar. Fulltrúar félaganna mæta á ári hverju á ársþing, uppfullir af bjartsýni og góðum vilja. Menn takast á um málefni og ná einhverjum niðurstöðum í þeim málum sem mestu skipta. En gallinn er sá, að þrátt fyrir góðan vilja, eru fulltrúar félaganna fastir í rótum eigin félaga og taka eingöngu ákvarðanir sem koma þeirra eigin félögum til góða, a.m.k. reyna þeir það. Skiljanlega. Eðlilega. Þeim ber í raun skylda til að gera það.

En hver er að horfa á heildina? Okkur vantar að lyfta okkur upp úr eigin hugarheimi, koma okkur út úr þorpinu eða hverfinu, og horfa markvisst á heildina með það fyrir augum að efla keppni þeirra bestu, sér í lagi deildarkeppnina. Jafnvel þó það þýði að allir fái ekki það sem þeir vilja. En hver er að sinna því hlutverki? Formaður og stjórn sjá um framkvæmdir sambandsins í takt við lög KKÍ og samþykktir ársþinga en hafa að mínu mati ekki tekið nægjanlegt frumkvæði í málefnum deildarinnar. Ekki til þessa a.m.k. Að minnsta kosti ekki með sjáanlegum árangri. Ég tel að breyting þurfi að verða á þessu. Hvað er efstu deildinni fyrir bestu? Og þar með körfuboltanum í heild?

Sem sagt, ég lýsi eftir frumkvæði stjórnar KKÍ um málefni efstu deildar karla og kvenna. Ég lýsi eftir stefnu um hvernig megi lyfta körfunni upp á næsta stall, hvernig megi auka aðsókn á leiki, fyrst og fremst. Með þessu er ég alls ekki að fría félögin, nema síður sé. Þau þurfa, eftir sem áður, og af meiri krafti en nokkru sinni fyrr, að vinna að sínum málum á heimavelli. En ég sakna markvissrar stefnu. Og hún verður að koma frá stjórn. Stjórn KKÍ er nefnilega eini “hlutlausi” aðilinn í þessu máli.

Aðsókn á leiki er besti dómarinn um hve vinsæl íþróttin er meðal almennings. Annar mælikvarði, og ekki síður mikilvægur, er vitanlega fjöldi iðkenda, en hann er ekki umfjöllunarefnið hér. Aðsóknin er lykillinn. Ef hún fer upp, þá kemur allt hitt í kjölfarið, umfjöllun fjölmiðla, umræður á kaffistofum o.s.frv. Allt það sem við þekkjum svo vel á Suðurnesjum og nú á Vesturlandi þegar úrslitakeppnin stendur yfir. Við viljum að þessar umræður séu í gangi um allt land allt árið. Svona eins og enski boltinn. Við eigum að setja stærsta fókusinn á að fjölga áhorfendum. Punktur.

Í öðru lagi tel ég að þing okkar, hversu ágæt sem þau nú annars eru, séu haldin of oft. Við stöldrum aldrei við og gefum hlutunum séns, erum stöðugt að hræra í málunum. Að mínu mati mætti vel íhuga að halda þingin sjaldnar, á tveggja eða þriggja ára fresti, og gefa þannig fyrirkomulagi ákveðinn tíma. Jafnvel finnst mér umhugsunarvert hvort ekki væri rétt að gefa stjórn KKÍ heimild til að breyta reglugerðum, eða a.m.k.breyta framkvæmd ákveðinna mála, eftir því sem henni þurfa þykir. Stjórnin er óháð einstökum félögum, líkt og David Stern hjá NBA, hún hefur eingöngu hagsmuni heildarinnar að leiðarljósi. Hún ætti að sjá hvað er deildarkeppninni fyrir bestu og ætti jafnvel að hafa heimild til að breyta hlutunum eftir bestu sannfæringu, ef hún teldi það stuðla að bættri aðsókn og eflingu deildarkeppninnar. Málið er nefnilega, að ef menn leggjast á eitt, þá er allt hægt. Allt. Það kostar bara vinnu.

Svo mörg voru þau orð …. í bili amk.

Hrannar Hólm