Fréttir

Karfa: Karlar | 30. apríl 2010

Snæfellingar Íslandsmeistarar 2010

Keflvíkingar máttu þola niðurlægingu í kvöld þegar Snæfellingar mættu á svæðið og pökkuðu þeim saman fyrir framan 1200 manns í sláturhúsinu í kvöld. Lokatölur leiksins voru 69-105. Það má segja að Snæfellingar hafi náð að klára leikinn á fyrstu mínútunum, en staðan var orðin 11-31 þegar 3 mínútur og 23 sekúndur voru liðnar af leiknum. Þetta leit allt saman einhvern veginn svo óraunverulega út, en að sama skapi áttu Snæfellsmenn sinn besta leik í sögu félagsins. Þeir náðu að skora 30 stig án þess að klikka úr skoti, hvað er hægt að segja við því? Það gekk hreinlega allt upp hjá þeim og Keflvíkingar áttu í kjölfarið afskaplega slæman leik. Hægt er að smala öllum körfubolta-spekingum landsins saman ásamt sálfræðingum til að greina leikinn, en eitt er víst; Keflvíkingar áttu bara fá svör við þessum leik hjá Snæfellsmönnum. Þeir áttu sigurinn fyllilega skilið og það eina sem var virklega svekkjandi við þennan leik var hversu mikil slátrunin var á eigin heimavelli fyrir framan kjaftfullt hús.

Stigahæstur hjá Keflavík var Urule með 23 stig, en næstur honum kom Sverrir Þór Sverrisson með 10 stig. Hjá Snæfell var Hlynur Bæringsson með 21 stig og 11 fráköst. Næstur honum kom Martins Berkis með 18 stig.

Lítið hægt að segja eftir svona leik en við óskum Snæfellingum til hamingju með sinn fyrsta Íslandsmeistartitil í sögu félagsins. Við höfum oft verið í þeim sporum að hampa dollunni, en því miður gerðist það ekki í ár. Þrátt fyrir þetta tap eiga strákarnir hrós skilið fyrir gott tímabil þar sem úrslitin réðust ekki fyrr en í oddaleik. Þeim var spáð 5. sæti í byrjun tímabils og afsönnuðu þær spár algjörlega. Þrátt fyrir gamla klisju, en þá kemur tímabil eftir þetta tímabil og strákarnir í Keflavík hafa ekki sungið sitt síðasta, það eitt er víst. Missum okkur ekki í einhverju væli eftir svona leik og höldum áfram að styðja við okkar félag sem er að okkar mati það besta á Íslandi!

Áfram Keflavík!