Fréttir

Karfa: Karlar | 17. janúar 2011

Snæfellsmenn kjöldregnir að hætti hússins - Tímamót hjá Jonna Norðdal

Keflvíkingar fóru hamförum í Toyota Höllinni í kvöld þegar Snæfellsmenn mættu í heimsókn. Ekki var að sjá að Snæfell hafði einungis tapað einum leik í deildinni þegar Keflvíkingar tættu þá í sig. Lokatölur leiksins voru 112-89.

Snæfell byrjaði leikinn betur en Keflvíkingar voru fljótir að sækja að þeim með hröðu spili og þéttri vörn. Í byrjun annars leikhluta settu Keflvíkingar í fluggír og áttu völlinn eins og hann lagði sig. Mikill baráttuandi einkenndi leik þeirra og var sjálfstraustið hátt. Menn voru óhræddir við að gefa erfiðar sendingar, sem oftar en ekki gáfu körfu. Staðan í hálfleik var 62-44 og var Thomas Sanders maður fyrri hálfleiks, en hann var komin með 19 stig. Keflvíkingar héldu öruggri forystu í seinni hálfleik og leyfðu Snæfellsmönnum aldrei að komast almennilega inn í leikinn. Sean Burton gerði sitt besta í að saxa á forskotið, en drengurinn skaut 13 þriggja stiga skotum, en einungis 2 rötuðu rétta leið. Munaði þar um minna fyrir Snæfell. Síðustu mínútur 4. leikhluta voru að hluta til notaðar í sirkus-tilraunir af hálfu Keflvíkinga, en þær heppnuðust þó ekki í flestum tilfellum. Það kom ekki að sök þar sem sigurinn var í höfn.

Keflvíkingar léku án Lazar Trifunovic, en hann sneri sig á æfingu á laugardaginn. Þau meiðsli eru þó ekki talin alvarleg og ætti kappinn að jafna sig fljótlega. Magnús Þór Gunnarsson spilaði rúmar 14 mínútur í leiknum en náði þó ekki að setjann. Hann var þó mjög öruggur á vellinum og á bara eftir að styrkja liðið í komandi baráttu.

Atkvæðamestur í liði Keflvíkinga var Thomas Sanders, en hann skoraði 30 stig og fór hamförum á vellinum. Hörður Axel var með 17 stig og 11 stoðsendingar, Siggi Þorsteins og Þröstur Leó 16 stig hvor, Jón Norðdal 11 stig og Gunni Einars 9 stig.

Þröstur Leó átti flottan leik og sýndi mikla baráttu á vellinum.  Ef áfram heldur sem horfir með hann, þá skulu andstæðingarnir passa sig á kappanum.

Hjá Snæfell var Jón Ólafur Jónsson með 28 stig og 13 fráköst. Pálmi Freyr 20 stig og Sean Burton 15 stig.

 

Í kvöld voru tímamót hjá Jóni Norðdal Hafsteinssyni. Pilturinn var að spila sinn 500. leik fyrir Keflavík, en hann byrjaði að spila með Keflavík tímabilið 1997-1998. Hann hefur allar götur síðan spilað fyrir sitt heimalið og verið einn af lykilmönnum liðsins síðustu ár. Jonni kemst því í eftirsóttan Keflavíkurhóp sem samanstendur af 4 öðrum leikmönnum, en þeir eru Gunnar Einarsson, Guðjón Skúlason, Jón Kr. Gíslason og Falur Harðarson. Stjórn Körfuknattleiksdeildar Keflavíkur óskari Jóni til hamingju með þann áfanga og vonandi bætir hann mörgum leikjum til viðbótar í safnið.

 

 

 
Thomas Sanders fór mikinn í kvöld og skoraði 30 stig (mynd: vf.is).

 


 
 Jonni Norðdal landaði leik nr. 500 fyrir Keflavík.