Snæfellsstúlkur lagðar að velli
Keflavíkurstúlkur héldu uppteknum hætti í kvöld þegar þær lögðu Snæfellsstúlkur að velli í Toyota Höllinni, en leikið var í Iceland Express deild kvenna. Lokatölur leiksins í kvöld voru 82-66.
Keflavíkurstúlkur mættu því miður ekki grimmar til leiks og voru í dágóðan tíma að finna einhvern takt í leik sínum. Þetta nýttu Snæfellsstúlkur sér og þær héldu sér í raun inni í leiknum fyrri hluta fyrri hálfleiks. Það var ekki fyrr en á annarri mínútu annars leikhluta að Keflavíkurstúlkur sýndu klærnar og hægt og bítandi bættu í. Keflavík átti svo 12-0 áhlaup á lokamínútum hálfleiksins og sneru þær stöðunni í 49-35 þegar liðin héldu í búningsklefa.
Seinni hálfleikur var með svipuðu sniði og voru Keflavíkurstúlkur búnar að vinna sér inn 20 stiga forskot í byrjun 4. leikhluta. Þegar þarna var komið við sögu var í raun aldrei spurning um hvoru megin sigurinn myndi enda, heldur bara hversu stór hann yrði. Svo fór að Keflavík landaði sigri 82-66 eins og fyrr segir.
Stigaskor kvöldsins:
Keflavík: Jaleesa Butler 27/20 fráköst/3 varin skot, Birna Ingibjörg Valgarðsdóttir 13/6 fráköst, Pálína Gunnlaugsdóttir 11/4 fráköst/6 stoðsendingar/5 stolnir, Sara Rún Hinriksdóttir 9/6 fráköst, Lovísa Falsdóttir 7, Sandra Lind Þrastardóttir 6, Hrund Jóhannsdóttir 6/5 fráköst, Telma Lind Ásgeirsdóttir 2, Helga Hallgrímsdóttir 1, Sigrún Albertsdóttir 0, Bríet Sif Hinriksdóttir 0, Aníta Eva Viðarsdóttir 0.
Snæfell: Kieraah Marlow 19, Hildur Sigurdardottir 16/9 fráköst/5 stoðsendingar, Hildur Björg Kjartansdóttir 13/6 fráköst, Helga Hjördís Björgvinsdóttir 12/4 fráköst, Björg Guðrún Einarsdóttir 3/4 fráköst, Alda Leif Jónsdóttir 2/4 fráköst, Sara Mjöll Magnúsdóttir 1, Aníta Sæþórsdóttir 0, Ellen Alfa Högnadóttir 0, Rósa Indriðadóttir 0.