Spennusigur í Ljónagryfjunni - Stutt viðtal við Val Orra
Keflvíkingar unnu magnþrunginn spennusigur, 85-88, gegn nágrönnum sínum í Njarðvík í þriðju umferð Domino´s deildarinnar í gær en leikurinn fór fram í Ljónagryfjunni. Ekki þarf að hafa mörg orð um umræddan leik. Hann var spennandi frá fyrstu mínútu eins og sannur nágrannaslagur á að vera, hann sýndi það besta í sóknarleik og hann sýndi það besta í samstilltum varnarleik og dramatíkin fylgdi með ótrúlegum endaspretti Njarðvíkinga sem kvittaður var út með stórkostlegri lokafléttu Keflvíkinga sem endaði með þriggjastigakörfu Gunnars Ólafssonar þegar tæp sekúnda lifði leiks. Michael Craion leiddi stigaskorun Keflvíkinga með 24 stig og 12 fráköst. Guðmundur Jónsson kom næstur með 17 stig, Darrel Lewis skoraði 14 stig, hirti 11 fráköst og gaf 6 stoðsendingar, Valur Orri Valsson skoraði 12 stig og gaf 6 stoðsendingar og hetjan sjálf, Gunnar Ólafsson, skoraði 11 stig og tók 6 fráköst.
Mikið var rætt og ritað um frammistöðu Gunnars Ólafssonar sem eðlilegt er enda skoraði drengurinn frábæra sigurkörfu. Annar ungur leikmaður átti hins vegar frábæran leik en það var Valur Orri Valsson en hann leiddi liðið upp völlinn með mikilli prýði. Valur Orri var að vonum sáttur í leikslok; "Við kláruðum þennan leik sem betur fer. Það sem skóp sigurinn í kvöld var góð svæðisvörn í seinni hálfleik en aftur á móti var sóknarleikurinn frekar slakur allan leikinn að mínu mati"
Hvernig var að spila í þessum nágrannaslag fyrir framan allt þetta fólk? Mjög gaman enda eru þetta leikirnir sem manni hlakkar mest til. Það var mikið talað um þennan leik dagana áður og fólk stóð við það sem það sagði og mætti - sem er bara geðveikt. Þá er auðvitað alltaf jafn gaman að vera í sigurliðinu í rimmum þessara liða og sætt í leiðinni.
Hvernig lýst þér á framhaldið á tímabilinu og hvernig finnst þér þú sjálfur hafa verið að spila? Mér lýst alveg fáranlega vel á framhaldið, sérstaklega ef við höldum áfram á þessari sigurbraut og höldum áfram að verða betri með hverjum deginum. Ég er frekar sáttur með mína eigin frammistöðu en mér finnst ég þó alltaf geta betur.
Slæmt að missa Magnús Þór í þessi meiðsli? Já, það er mjög slæmt en það ætti ekki að koma of mikið niður á liðinu ef menn koma sterkari inn. Annars er auðvitað vont að missa Magga ég vona að hann komi fljótlega aftur til baka.
Og nýju mennnirnir? Já, mér lýst frábærlega á alla nýju leikmennina. Þeir fitta akkúrat inn í þetta hjá okkur, bæði sem leikmenn og sem karakterar og það alls ekki leiðinlegt að spila með þeim. Bara frábærlega. Þeir fitta akkurat inn i þetta lið bæði sem leikmenn og karakterar og svo er ekkert leiðinlegt að spila með þeim
Eitthvað að lokum frá Valnum? Nei, nei bara áfram Sunny Kef-City