Stelpur frá Sindra heimsóttu Keflavík s.l. laugardag
Ungmennafélagið Sindri frá Höfn í Hornafirði er eitt af þeim félögum sem yfirleitt sækir Nettómótið árlega heim. Hjá félaginu leggur töluverður fjöldi drengja stund á körfuknattleik og á nýafstaðið Nettómót, mættu þeir með tvö drengjalið.
Ekki hefur gengið jafn vel að virkja stelpurnar í körfunni fyrir austan þó þar séu nokkrar stelpur sem æfa af kappi. Við komumst á snoðir um það á dögunum, að Sindri hefði afráðið að verðlauna stelpurnar með borgarferð fyrir iðni og góða ástundun í vetur og af því tilefni ákvað Barna- og unglingaráð KKDK að bjóða þeim til Keflavíkur þannig að þær næðu að blanda saman æfingu, keppni og skemmtun að hætti Suðurnesjamanna.
Mættu þær kl. 11 s.l. laugardag á æfingu í Toyotahöllina með stelpunum í 9. flokki Keflavíkur þar sem farið var í gegn um skemmtilegar æfingar og að lokum splæst í leik að hætti hússins. Eftir u.þ.b. tveggja tíma körfuboltaprógramm buðum við öllum stelpunum í pizzuveislu í félagsheimilinu þar sem tekið var vel á því. Að því loknu skelltu stelpurnar sér í Vatnaveröld - Sundmiðstöð og endu síðan heimsóknina til Reykjanesbæjar á að sjá leik UMFN og Vals í Ljónagryfjunni í lokaumferð Iceland Express deildar kvenna.
Það var virkilega gaman að fá þessar hressu stelpur í heimsókn enda lögðu þær sig allar fram og höfðu okkar stelpur einnig hina bestu skemmtun af heimsókninni. Við sendum Sindra stelpum baráttukveðjur og vonandi á bara eftir að fjölga í kvennakörfunni hjá þeim á komandi misserum.
Hér má sjá blandaða hópmynd af Keflavík og Sindra ásamt þjálfurum.