Stelpurnar einum leik frá Íslandsmeistaratitli
Keflavík og Njarðvík áttust við í Ljónagryfjunni í Iceland Express deild kvenna í kvöld. Lítið fór fyrir stigunum í þessum leik, 
en svo fór að Keflavík landaði góðum sigri 64-67 og geta þær tryggt sér Íslandsmeistaratitilinn á föstudaginn næstkomandi.
Það voru Njarðvíkurstúlkur sem byrjuðu af miklum krafti og höfðu yfirhöndina út allan 1. leikhluta, en staðan var 22-16 þegar 
leikhlutinn kláraðist. Algjör kúvending varð í leik Keflavíkur og var allt annað að sjá til þeirra í öðrum leikhluta. Vörnin small í 
gang og skynsemi réði för í sóknarleiknum. Þegar flautað var til hálfleiks var staðan skyndilega orðin 36-49, en Keflavík vann 
2. leikhluta 14-33. Bryndís Guðmundsdóttir hafði farið á kostum og skorað 20 stig þegar hálfleiksflautan gall.
Í seinni hálfleik var kominn tígur í tankinn hjá Njarðvíkurstúlkum og söxuðu þær smátt saman á forskot Keflvíkinga. Þær seinni 
héldu þó ró sinni, enda alvanar þessum aðstæðum og héldu áfram með sinn leik. Minnstur varð munurinn undir lok leiksins, 
en þá hafði Njarðvík komist í stöðuna 64-67. Lengra komust þær þó ekki og Keflavík landaði frábærum sigri.
Stigaskor kvöldsins:
Njarðvík: Shayla Fields 25/4 fráköst/5 stoðsendingar, Julia Demirer 15/10 fráköst, Dita Liepkalne 14/8 fráköst, 
Ólöf Helga Pálsdóttir 7/6 fráköst, Anna María Ævarsdóttir 2, Ína María Einarsdóttir 1.
Keflavík: Bryndís Guðmundsdóttir 24/7 fráköst, Ingibjörg Jakobsdóttir 12, Marina  Caran 11/7 fráköst, 
Birna Ingibjörg Valgarðsdóttir 8/6 fráköst, Lisa Karcic 6/10 fráköst/5 stolnir, Pálína Gunnlaugsdóttir 4/8 fráköst, 
Hrund Jóhannsdóttir 2.  
Nú eru Keflavíkurstúlkur aðeins einum leik frá því að landa Íslandsmeistaratitli í fjórtánda sinn. Næsti leikur liðanna fer fram 
í Toyota Höllinni á föstudaginn næstkomandi og hefst hann kl. 19:15.
ÞAÐ ER ALGJÖR SKYLDUMÆTING FYRIR KEFLVÍKINGA Á ÞENNAN LEIK OG 
MEÐ AÐSTOÐ FRÁ STÚKUNNI, NÁ STELPURNAR AÐ LANDA TITLINUM 
Á FÖSTUDAG.
Áfram Keflavík!

