Fréttir

Körfubolti | 23. janúar 2004

Stelpurnar í góðum gír

Eftir auðveldan sigur á ÍS í undanúrslitunum héldu okkar stúlkur í Vesturbæinn á miðvikudaginn og lögðu þar KR-inga í annað skiptið á einum mánuði, en síðast unnum við KR í kvennaboltanum í úrslitum Hópbílabikarsins rétt fyrir jól. Keflavík var áberandi betra liðið og þær stöllur Birna og Erla Þ voru iðnar við stigaskorunina, gerðu 24 og 20 stig. Með þessum sigri komst Keflavík í efsta sæti deildarinnar, af því að ÍS tapaði fyrir Grindavík, frekar óvænt. Keflavík var miklu grimmara liðið á vellinum og t.d. tóku þær Anna María og Erla Þ samtals tæp 30 fráköst.

Hér má sjá tölur úr KR-leiknum

Keflavíkurstúlkur virðast vera öflugar um þessar mundir og vonandi halda þær áfram á sömu braut því nú styttist óðum í bikarúrslitin, en þar mæta þær einmitt KR að nýju. ÍS-ingar virðast hafa misst svolítinn vind úr seglunum en þær koma öðru sinni á einni viku í heimsókn til Keflavíkur á morgun.

Eflaust vilja þær hefna ófaranna frá því í bikarnum, en segja má að þær hafi verið kjöldregnar í Keflavík þá. Við reiknum með miklu meiri spennu í þetta skiptið enda er þessi leikur ekki síður mikilvægur, efsta sætið í deildinni er í húfi.