Fréttir

Karfa: Konur | 17. janúar 2010

Stelpurnar komnar í 4-liða úrslit

Keflavíkur-stúlkur lögðu Hamars-stúlkur í kvöld og eru þar af leiðandi komnar í 4-liða úrslit Subway-bikarkeppninnar. Lokatölur voru 86-72 og var sigurinn aldrei í neinni verulegri hættu út allan leikinn. Keflavík ætlaði reyndar að klára leikinn á upphafsmínútum leiksins, en þeim komst að komast í 15-0. Hamars-stúlkur hrukku þá eilítið í gangi, en þó var staðan 23-9 eftir fyrsta leikhluta. Annar leikhluti var á svipuðum nótum, Keflavíkur-stúlkur spiluðu hraðan leik og létu boltann ganga mjög vel. Staðan í hálfleik var 37-24. Munurinn á liðunum varð minnstur í 3. leikhluta, en þá náðu Hamars-stúlkur að minnka muninn í 5 stig. Lengra komust þær þó ekki og á lokamínútum leiksins gerði Keflavík út um leikinn með góðri nýtingu, bæði innan og utan í teig.

Kristi Smith átti góðan leik og skoraði hún 29 stig. Hún setti 6 þriggja stiga körfur niður í 11 tilraunum. Bryndís Guðmundsdóttir var með 23 stig, en hún tók 10 fráköst og átti 7 stoðsendingar. Birna Valgarðsdóttir var með 17 stig og hitti 3 af 4 þriggja stiga skotum sínum. Hjá Hamar var Julia Demirer með 21 stig, en á eftir henni kom Koren Schram með 11 stig.

Stórglæsileg úrslit og stelpurnar eru því komnar í 4-liða úrslit Subway-bikarkeppninnar, ásamt Njarðvík og Haukum. Ekki er ljóst á þessari stundu hvernig leikur Fjölnis og Laugdælinga endaði.

Áfram Keflavík!