Stelpurnar komnar í 4-liða úrslit
Keflavíkurstúlkur tryggðu sér sæti í 4-liða úrslitum Iceland Express-deildarinnar í kvöld þegar þær lögðu Snæfellsstúlkur að velli í framlengdum leik, en lokatölur leiksins voru 105-112. Liðin skiptust á að hafa forystu í leiknum með reglulegu millibili út leikinn, en þegar um 1:20 voru eftir af leiknum, þá leiddu Keflavíkurstúlkur 86-94. Snæfellsstúlkur sýndu mikla baráttu og jöfnuðu metin 96-96 þegar 12 sekúndur voru eftir af leiknum. Þannig lauk leikum og leikurinn fór í framlengingu. Í framlengingunni voru Keflavíkurstúlkur betri aðilinn og náðu að sýna styrk á lokametrunum og sigra að lokum 105-112.
Bryndís Guðmundsdóttir átti frábæran leik hjá Keflavík, en hún skoraði 37 stig, hirti 15 fráköst og gaf 6 stoðsendingar. Birna Valgarðsdóttir átti einnig flottan leik, en hún skoraði 31 stig. Kristi Smith gerði 29 stig. Hjá Snæfell var Sherell Hobbs með magnaðan leik, en hún skoraði 42 stig. Gunnhildur Gunnarsdóttir skoraði 15 stig.
Keflavíkurstúlkur eru því eins og fyrr segir komnar í 4-liða úrslitin og mæta þær Hamarsstúlkum þar. Fyrsti leikur verður háður á laugardaginn næstkomandi.
Áfram Keflavík!