Stelpurnar sigruðu í Grindavík
Keflavíkurstúlkur rétt mörðu sigur í Grindavík í kvöld, en leikurinn fór í framlengingu og voru lokatölur 76-79. Liðin skiptust á að hafa forystu út leikinn en á lokamínútunum var allt í járnum. Grindavíkurstelpur náðu að jafna leikinn þegar um 10 sekúndur voru eftir. Kristi Smith klúðraði svo 3ja stiga skoti og leikurinn fór í framlengingu. Í framlengingunni voru Grindavíkurstúlkur yfir alla framlenginguna, en Keflavíkurstúlkur sýndu hörku og komust yfir þegar um 50 sekúndur voru eftir af leiktímanum og sigruðu að lokum. Með sigrinum tókst Keflavíkurstúlkum að komast í annað sætið og einungis einn leikur eftir í deildinni og er hann gegn Hamar í Toyota Höllinni 2. mars næstkomandi.
Hjá Keflavík var Kristi Smith með 25 stig, en Birna Valgarðsdóttir skoraði 19 stig og hirti 10 fráköst. Bryndís Guðmundsdóttir var með 15 stig og 14 fráköst. Hjá Grindavík var Michele DeVault með 24 stig og 12 fráköst, en Íris Sverrisdóttir skoraði 12 stig.