Stelpurnar úr leik
Keflavíkurstúlkur töpuðu í gær þriðja leiknum í röð gegn Haukum í 4-liða úrslitum Domino´s deildarinnar og eru þar með úr leik þetta árið. Það var á brattann að sækja frá upphafi og þegar yfir lauk voru Haukastúlkur einfaldlega of sterkar.
Án þess að ætla að kryfja tímabilið í þessum pistli er ljóst að nokkrir samverkandi þættir urðu þess valdandi að tímabilið gekk ekki eins vel og vonast hafði verið til. Má þar kannski helst nefna hið mikla brottfall sem liðið varð fyrir með því að missa þrjá máttarstólpa liðsins frá því árinu áður, Pálínu Gunnlaugsdóttur í Grindavík, Birnu Valgarðsdóttur í meiðsli og Ingunni Emblu Kristínardóttur í fjölgun mannkyns auk þess sem Ingibjörg Jakobsdóttir sem lék undir lok tímabilsins fór einnig.
Eitt er þó deginu ljósara og það er að Keflavík hefur á að skipa frábærum ungum stúlkum sem munu rísa undir því verkefni sem þeim verður falið næstu árin við að endurheimta alla þá titla sem í boði eru á Íslandi. Minnug þess að síðast þegar Keflavík var slegið út 3-0 gegn Haukum þurfum við Keflvíkingar ekki að kvíða því næsta tímabil eftir, þ.e. tímabilið 2012-2013, unnu Keflavíkurstúlkur alla þá titla sem í boði voru!