Fréttir

Karfa: Konur | 3. febrúar 2010

Stelpurnar völtuðu yfir Grindavík

Keflavíkurstúlkur eru í banastuði um þessar mundir og voru þær nú undir kvöld að rúlla upp enn einum stórleiknum, en fórnarlömb þeirra í kvöld voru Grindavíkurstúlkur. Lokatölur voru 91-77 fyrir Keflavík, en Keflavíkurstúlkur náðu forystu á sjöttu mínútu leiksins og héldu henni til leiksloka. Staðan í hálfleik var 60-43 fyrir Keflavík. Vert er að hafa í huga að Grindavíkurstúlkur sitja í öðru sæti deildarinnar, en um daginn sigruðu Keflavíkurstúlkur einmitt KR-stúlkur, en þær sitja í toppsætinu. Tveir sigrar í röð gegn tveimur efstu liðum deildarinnar er ekkert slor.

Kristi Smith átti frábæran leik fyrir Keflavík, en hún skoraði 31 stig. Aukinheldur var hún með 100% nýtingu í 3ja stiga skotum sínum (5/5), og 64% nýtingu í 2ja stiga skotum sínum (7/11). Bryndís Guðmundsdóttir skoraði 20 stig, ásamt því að eiga 9 stoðsendingar. Birna Valgarðsdóttir skoraði 15 stig og tók 10 fráköst. Hjá Grindavík voru Íris Sverrisdóttir og Joanna Skiba með 14 stig.

Glæsilegur leikur að baki og nú er bara að sýna sömu vígtennur í komandi leikjum.

Áfram Keflavík!