Fréttir

Karfa: Karlar | 16. janúar 2010

Stjörnumenn rasskelltir í Toyota Höllinni

Stjörnumenn voru svo sannarlega rasskelltir í Toyota Höllinni í kvöld, en þar mættu þeir ofjarli sínum; Keflavík. Lokatölur voru 118-83 og í raun var leikurinn búinn í 3. leikhluta, en þá voru Keflvíkingar komnir með um 40 stiga forskot á tímabili. Leikurinn lofaði góðu í fyrsta leikhluta, en í lok hans voru Keflvíkingar yfir 22-20. Í öðrum leikhluta settu Keflvíkingar allt í gang og rúlluðu yfir Stjörnumenn sem voru algjörlega ráðvilltir á vellinum. Varnarleikur Stjörnumanna var í molum, en glufur úti um allt gerði það að verkum að Keflvíkingar gátu sundurspilað þá og skorað auðveldar körfur. Sóknarleikur Stjörnumanna var skelfilegur og misstu þeir boltann alltof oft, ásamt því að láta skotklukkuna renna út og taka "airball" reglulega. Þarna spilaði líka sterkur varnarleikur Keflvíkinga stóran þátt.


Atkvæðamestur Keflvíkinga var Draelon Burns, en kappinn var sjóðheitur og gerði 30 stig, þrátt fyrir að hafa spilað einungis 30 mínútur. Á eftir honum kom Gunnar Einarsson með 23 stig og Hörður Axel Vilhjálmsson var með 22 stig. Hjá Stjörnumönnum var Justin Shouse með 21 stig, en á eftir honum kom Jovan Zdravevski með 17 stig.


Keflvíkingar voru fullir sjálfstrausts, í fantaformi og vonandi mun sá koktaill verða til staðar á mánudaginn þegar þeir mæta Njarðvík í 8-liða úrslitum Subway-bikarkeppninnar.


Áfram Keflavík!