Stór dagur í gær þegar 2 Íslandsmeistaratitlar duttu í hús
Það var flottur dagur hjá yngri flokkum Keflavíkur í gær. Tveir flokkar voru að keppa um Íslandsmeistaratitil og tókst þeim báðum ætlunarverkið.
7. flokkur stúlkna lék lokamótið á heimavelli í Toyotahöllinni en þær hafa ekki tapað leik í vetur og eru ríkjandi Íslandsmeistarar. Engin breyting varð á um helgina og þessar mögnuðu stelpur héldu uppteknum hætti og léku til úrslita við lið Ármanns sem þær lögðu 43-11.
Peyjarnir í Minnibolta 11. ára voru í gríðarlega harðri baráttu um titilinn og fyrir lokaleikinn gegn Stjörnunni lá fyrir þeir þyrftu sigur til að verða Íslandsmeistarar. Leikið var í Garðabæ þar sem Stjarnan hafði unnið sér inn heimaleikjaréttinn með besta samanlagða árángurinn úr fyrstu þremur mótunum en Keflvíkingar voru með næst besta samanlagða árangurinn. Leikar fóru svo að Keflvíkingar sigruðu 32-25 í leik þar sem spennustigið var hátt og allt var lagt undir. Fyrsti titill Keflvíkinga í minnibolta drengja í ein tólf ár sagði einhver og fögnuðurinn var að vonum mikill.
Þess má geta að Björn Einarsson þjálfar báða þessa flokka og verður einnig í eldlínunni um næstu helgi þegar 7. flokkur drengja leikur á lokamóti sínu í Vesturbænum.
Okkur hafa ekki borist myndir af strákunum úr Garðabænum en Páll Orri var með myndavélina á lofti í Keflavík í gær og flottar umfjallanir má sjá um stelpurnar og fleira þessu tengt á vef Víkurfrétta.
Sjá umfjöllun um 7. flokk stúlkna og myndir á VF
Sjá umfjöllun um báða titlana og hjólreiðatúr Bjössa þjálfara og myndir á VF
pop@vf.is