Stórafmæli í dag & veisla - KKÍ er 50 ára í dag
Körfuknattleikssamband Íslands, KKÍ er stóra afmælisbarn dagsins og tendrar á fimmtíu kerta köku í dag, en sambandið var stofnað þann 29. janúar 1961.
Við sem starfrækjum körfuknattleiksdeildir og iðkum þá göfugu íþrótt körfu, körfubolta, körfuknattleik, basket eða basketball.........við erum KKÍ, ekki gleyma því. KKÍ eru hagsmunasamtök, mótshaldari & regluverk allra aðildarfélaga sambandsins.
Fyrsti formaður Körfuknattleikssambandsins var Bogi Þorsteinsson, en hann var formaður fyrstu átta árin eða frá stofnárinu 1961 til 1969. Bogi var í fararbroddi sinnar kynslóðar við útbreiðslu körfuknattleiks á Íslandi og lagði grunninn að þeirri sterku körfuboltahefð sem alla tíð síðan hefur verið ríkjandi þjóðaríþrótt í Njarðvík, þar sem Bogi hefur réttilega settur á stall sem guðfaðir leiksins og deildarinnar.
Keflavík, hjáleigan handan landamæra frumbyggjanna, smitaðist síðar af fagnaðarerindinu og frelsaðist, þótt þar á bæ næðist ekki sama flugferð fyrr en íþróttamannvirki reis í bæjarfélaginu sem rúmaði löglegann völl. Það var íþrótthúsið við Sunnubraut, fyrst tekið í notkun árið 1981, en lokafrágangur hússins var m.a. unnin af aðstöðuþyrstum ungmennafélagsmönnum sem áttu auðvelt með að leggja hönd á plóginn þegar ljóst var að þeirra framtak gæti skipt sköpum hvort notkunin hæfist ´81, ´82 eða jafnvel ´83.
Allar götur síðan þá, hafa "þessar tvær höfuðþjóðir Suðurnesjanna" háð margar og skemmtilegar viðureignir í gegn um tíðina, sumar óvægnar, en oftast sanngjarnar, og þekktar fyrir að vera magnþrungið krydd í mannlífið, keppnisandann & tilveruna á þessu útnesi alheimsins, oftast kallað Reykjanesbær í dag.
Afmæli kallar oftast á viðburð eða veislu og því ætlar KKÍ að smala öllum áhugasömum unnendum íþróttarinnar í Smáralindina í dag, laugardaginn 29. janúar, og taka smá slamm. Á staðnum verða körfur fyrir alla aldurshópa og boltar þar sem leikmenn úr efstu deildum karla og kvenna munu stýra leikjum og stöðvum og allir geta prufað körfubolta.
Dagskráin í Smáralind hefst eftir hádegi. Hana má nálgast með því að klikka hér.
Nokkrar nútíma staðreyndir um KKÍ og körfuknattleik dagsins í dag:
-
Körfuknattleikur er önnur útbreiddasta íþróttagrein landsins og er stundaður í 24 af 25 íþróttahéröðum landsins.
-
Á Íslandi eru í dag skráðir rúmlega 7.000 iðkendur í körfuknattleik samkvæmt iðkendatölum ÍSÍ en þá er ekki talinn með sá mikli fjöldi sem stundar körfuboltann sem líkamsrækt, til dæmis vinnustaðahópar og vinahópar, eða þeir sem stunda körfuboltann á útikörfuboltavöllum landsins.
-
Keppnistímabilið 2009-2010 voru leiknir tæplega 5.000 leikir á vegum KKÍ á Íslandsmóti eða í Bikarkeppnum.
-
Fjölliðamót yngri flokka eru haldin víðsvegar um landið, um flestar helgar frá október fram í apríl en 12-15 fjölliðamót eru að jafnaði um hverja helgi.