Fréttir

Stórleikur í TM-Höllinni á sunnudag í Poweradebikarnum
Karfa: Karlar | 31. október 2013

Stórleikur í TM-Höllinni á sunnudag í Poweradebikarnum

Það verður sannkallaður stórleikur í 32-liða úrslitum Poweradebikarsins sunnudaginn 3. nóvember í TM-Höllinni en þá taka goðsagnirnar í Keflavíkurhraðlestinni (Keflavík-B) á móti liði Álftaness. Leikurinn hefst kl. 14.00 en ætla má að færri komist að en vilja. Búast má við stórskemmtilegum leik því þó flestir af leikmönnum Keflavíkurhraðlestarinnar séu komnir af léttasta skeiðinu búa þeir enn yfir gríðarlegum hæfileikum, reynslu, persónutöfrum og almennri útgeislun sem ætið er gaman að fylgjast með. 

Keflavíkurhraðlestin féll nokkuð óvænt út gegn Njarðvík í 32-liða úrslitum Poweradebikarsins í fyrra fyrir fullu húsi. Kapparnir vilja bæta upp fyrir það klúður, sem einna helst skrifast á það að undirbúningur Fals Harðarsonar fyrir leikinn var ekki hinn sami og fyrir leik þessara liða í úrslitum Íslandsmótsins árið 1999 þegar Falur vaknaði með dætrum sínum um morguninn og fékk sér Cheerios - eins og frægt varð. Fals verður klárlega saknað á sunnudag en kappinn glímir við meiðsli á hné og verður því ekki í búning. Ekki er þó að örvænta því Albert Óskarsson verður á staðnum en hann hefur ekki verið í jafn góðu formi í fjöldamörg ár eftir að hafa lesið yfir sig af LKL bókum. Guðjón Skúlason verður einnig á staðnum og hefur undirbúningur hans verið með nokkuð óhefðbundnum hætti, þó markvissum, en hann hefur þrætt Outback steikhús í flestum fylkjum Bandaríkjanna undanfarið til að koma skothöndinni í sitt besta form. Sigurður Ingimundarson verður að sjálfsögðu á staðnum en hann kvaðst í samtali við heimasíðuna aldrei hafa verið í betra formi og áætlaði að setja amk tvöfalda tvennu í fyrri og seinni hálfleik. Aðrir sem boðað hafa komu sína eru líkamsræktarmaskínan og ofurkroppurinn Gunnar Einarsson, þyrluspaðinn Sverrir Þór Sverrisson, fyrrum barnafataverslunin Börnin og Koda fyrirsætan Davíð Þór Jónsson, faðirinn Jón Norðdal Hafsteinsson, aðstoðarþjálfarinn og fyrrum stórskyttan Gunnar Hafsteinn Stefánsson, sonur hárgreiðslumeistarans og forsetans af Sól Sumarhús - Elentínus Margeirsson auk vonandi fleiri kunnra kappa. Sú saga hefur farið á kreik að Damon Johnson muni mæta til leiks en ákveðið var að geyma kappann þar til í 4-liða úrslitum að beiðni nokkurra yngismeyja sem eru á Kanarí um helgina og verða vant við látnar...

 


Sem sé glimmrandi stemming og stuð í TM-Höllinni kl. 14.00 á sunnudag en að lokum má auðvitað nefna að aðallið Keflavíkur leikur gegn KR á laugardaginn 2. nóvember kl. 16 og því um að gera að fara á þann leik og hita upp fyrir alvöruna...

Birgir Orri Hermannsson