Fréttir

Stórsigur á silfurdrengjunum - Stutt viðtal við Þröst Leó
Karfa: Karlar | 11. október 2013

Stórsigur á silfurdrengjunum - Stutt viðtal við Þröst Leó

Keflvíkingar unnu í gær stórsigur á Stjörnunni, silfurdrengjum síðasta tímabils, í fyrsta leik Domino´s deildar karla en leikið var í Garðabæ. Lokastaðan var 63-88 gestunum í vil og má segja að Stjarnan hafi aldrei séð til sólar, svo óralangt var hún.

Michael Craion var í "beast-mode" eins og það er kallað og þrátt fyrir að spila "aðeins" 28 mínútur skilaði hann 38 framlagsstigum en kauði var með 18 stig, 13 fráköst, 6 varin skot, 4 stoðsendingar og 3 stolna bolta! Darrel "eldist eins og viskí" Lewis var drjúgur með 17 stig. Þá var Arnar Freyr sterkur með 9 stig og 5 stoðsendingar á aðeins 20 mínútum.  Líkt og á undirbúningstímabilinu var bekkurinn vel nýttur og komu stór framlög frá honum en nefna má að Þröstur Leó Jóhannsson setti14 stig, Gunnar Ólafsson setti 12 stig.

Eins og flestir vita er Þröstur Leó Jóhannsson, eða "týndi sonurinn", kominn aftur heim eftir tvö ár á Sauðárkróki, þar sem hann andaði að sér fersku norðanlofti sem ku vera einkar frjóvgandi. Hann var að vonum ánægður með sigurinn. 

Hvað skóp þennan sigur?
Barátta og vilji, plús augljós getumunur sem stafar kannski af formleysi Stjörnunnar.

Hvernig lýst þér á veturinn?
Ég er virkilega spenntur fyrir vetrinum. Þetta flottur hópur með góðan þjálfara sem er gaman að vinna fyrir svo að veturinn getur orðið góður ef við höldum rétt á spöðunum.

Er ekki gott að vera kominn heim aftur og hver eru markmið þín fyrir komandi vetur?
Fögur er hlíðin sagði Gunnar og fór aftur heim. Jú, það er gott að vera kominn heim til ma & pa, vinanna og í Keflavíkurbúninginn. Það eru skýr markmið hjá Kef og það er að vinna og ég ætla að gera allt sem ég get til að titlar komi í TM - höllina.

Þú áttir ruddalega troðslu í leiknum gegn Stjörnunni, getur þú lýst henni fyrir þeim sem ekki mættu?
BIG RED (Andri Dan) tekur þrist úr horninu og ég fékk flugbraut af hinum kantinum, hoppaði eins hátt og ég gat og boltinn skoppaði til mín af hringnum, og ég tróð. "Putback", held ég að einhver hafi sagt í gær. Frákaststroðsla ?

Eitthvað að lokum Þröstur?
Hlakkar til að spila þessa fallegu íþrótt í vetur en það er aldrei nóg af fallegu fólki til að njóta allrar fegurðinar með okkur, mætum á völlinn og skemmtum okkur saman!!

MYND: Þröstur treður með látum í leik Stjörnunnar og Keflavíkur. Myndin er fengin af heimasíðu Vísis (www.visir.is) og má sjá nánari umfjöllun um leikinn og fleiri  myndir með því að smella HÉR