Stórsigur drengjaflokks á eyjamönnum
Drengjaflokkur lék sinn þriðja leik á Íslandsmótinu þegar þeir heimsóttu lið ÍBV í gær, sunnudag. Mikið basl var á okkar drengjum í fyrri hálfleik þar sem varnarleikurinn var slakur og var jafnt á tölum í hálfleik, 40-40. Eftir að þjálfari okkar manna hafði lesið þeim pistilinn í leikhléi girtu drengirnir hressilega upp brók og negldu leikinn gjörsamlega í þriðja leikhluta þar sem þeir náðu m.a. kafla þar sem þeir settu 35 stig gegn engu. Staðan eftir þriðja leikhluta 77-45 og lokatölur leiksins 106-57.
Stigahæstir Keflvíkinga í leiknum voru Andri Þór 28, Sævar 13, Eðvald 13 og Sigurður Vignir 12.
Þetta var fyrsti sigur liðsins í vetur en mótið er leikið í tveimur riðlum. Áður höfðu þeir tapað fyrir UMFN á útivelli 77-65 og á heimavelli fyrir Hamri/Þór Þorlákshöfn 70-56. Næsti leikur liðsins verður þriðjudaginn 27. október kl. 19.30 í Toyota höllinni þegar Þór Akureyri kemur í heimsókn.
Úrslit í B-riðli og leikjaplan má sjá nánar hér