Fréttir

Karfa: Karlar | 21. desember 2011

Strákarnir verma 3. sætið yfir hátíðarnar

Karlalið Keflavíkur spilaði sinn síðasta leik á sunnudaginn fyrir jólafrí, en drengirnir skelltu sér í ferðalag í Garðabæinn og mættu þar Stjörnumönnum. Það var mikið í húfi fyrir þennan leik, enda bæði lið að blanda sér í toppbaráttuna í deildinni. Því miður fór það svo að Stjörnumenn reyndust sterkari aðilinn í leiknum og lönduðu þeir sigri 107-91.

Bæði lið komu mjög spræk til leiks og var eflaust búið að margtyggja það ofan í leikmenn að þetta væri mjög mikilvægur leikur rétt fyrir jólafríið. Mikill hraði einkenndi leikinn og í kjölfarið komu einnig margar villur í hús hjá báðum liðum. Stjörnumenn voru öflugri undir lok leikhlutans, en þeir skoruðu 8 stig gegn tveimur hjá Keflavík og var staðan 32-28 eftir 1. leikhluta.

Stjörnumenn voru beittir í öðrum leikhluta og voru grimmir í fráköstunum. Keflvíkingar misstu einbeitninguna í sóknarleik sínum og nýttu Stjörnumenn sér það til hins ítrasta. Stjörnumenn bættu smám saman í forskotið og voru með forystu í hálfleik 61-47.

Keflvíkingar hrukku í gang þegar um 2 mínútur voru liðnar af seinni hálfleik og tóku 2-11 áhlaup, sem lagaði stöðuna í 66-60. Stjörnumenn voru þó ekki dottnir af sporinu og náðu að koma sér fljótt í leikinn aftur og settu stöðuna í 78-71 þegar leikhlutanum lauk.

 Í 4. leikhluta voru bæði lið að setj'ann, en því miður var staðan þannig að Keflvíkingar þurftu að fá Stjörnumenn til að misstíga sig, eða bæta verulega leik sinn. Sú varð ekki raunin og Stjörnumenn lönduðu sterkum sigri 107-91.

Keflvíkingar verða því að sætta sig við þriðja sæti deildarinnar yfir jólin og vonandi koma þeir ennþá sterkari inn eftir gott frí yfir hátíðarnar.

Stigaskor leiksins:

Stig Stjörnunnar:
Marvin Valdimarsson 23
Keith Cothran 23
Sigurjón Örn Lárusson 20
Justin Shouse 15
Guðjón H. Lárusson 10
Fannar Helgason 8
Dagur Kári Jónsson 8

Stig Keflavíkur:
Charlie Parker 27
Steven Gerrard 26
Jarryd Cole 18
Valur O. Valsson 7
Gunnar Stefánsson 6
Almar Guðbrandsson 4
Halldór Halldórsson 3

 

Parker skoraði 27 stig í leiknum.