Fréttir

Karfa: Karlar | 7. febrúar 2010

Strákunum rúllað upp á eigin heimavelli

Karlalið Keflvíkinga féll úr leik í Subway bikarkeppninni í dag eftir tap fyrir Snæfell, en lokatölur leiksins voru 64-90. Það er hægt að telja upp mörg lýsingarorð sem að gætu lýst leik Keflavíkurliðsins í dag, en þegar öllu er á botninn hvolft, þá gekk hreinlega lítið sem ekkert upp af leik liðsins. Byrjun leiksins lofaði góðu og í fyrsta leikhluta skiptust liðin á að hafa forystu, en í lok leikhlutans var staðan 21-21. Í byrjun annars leikhluta fór hlutirnir hins vegar að breytast á mjög skammri stundu. Snæfellsmenn hittu vel úr skotum sínum og áttu fjöldann allan af varnar- og sóknarfráköstum, á meðan Keflavík hitti nánast ekkert úr skotum sínum og áttu oft og tíðum mjög erfitt með að taka fráköst af andstæðingunum. Þetta gerði það að verkum að Snæfell leiddi leikinn í hálfleik 29-46.

Áhorfendur voru vongóðir að hlutirnir myndu breytast Keflavíkurliðinu í hag í byrjun síðar hálfleiks, Keflvíkingum tókst að skora 15 stig gegn 8 hjá Snæfell, en eftir það gekk ekkert upp. Skotin rötuðu einfaldlega ekki ofan í körfuna hjá Keflavík og í kjölfarið brotnaði liðið algjörlega saman, sem gerði það að verkum að enginn baráttuandi var eftir í liðinu. Uruele Igbavboa fékk að spreyta sig í 3ja leikhluta og skoraði í sinni fyrstu snertingu. Margir vildu meina að hann hefði átt erindi inn á völlinni töluvert fyrr í leiknum, þar sem enginn réði við Hlyn Bærings undir körfunni, en á móti kemur að lítið sem ekkert var vitað um getu Uruele fyrir leikinn og því alltaf áhætta sem myndi fylgja því að setja hann inn. Hann stóð sig þó með prýði í leiknum og veitti stóru mönnunum hjá Snæfell góða mótspyrnu. Burns átti afar slakan leik þrátt fyrir að hafa reynt út allan leikinn að keyra inn og skjóta fyrir utan, það rataði bara ekkert skot ofan í. Keflvíkingar voru með 8% nýtingu í 3ja stiga skotum sínum, en einungis 2 af 24 skotum rötuðu ofan í, sem er hreint út sagt skelfileg tölfræði á eigin heimavelli. Snæfell var hins vegar með 43% nýtingu í 3ja, en þeir skoruðu úr 16 af 37 skotum sínum.

Þessi titill er því að engu orðinn og eru liðin 6 ár síðan Keflavík landaði bikarmeistaratitli síðast, en það var tímabilið 2003-2004.

Það var virkilega sorglegt að horfa upp á hversu fáir létu sjá sig á þennan stórleik, þar sem einungis vantaði þennan sigur upp á til að tryggja úrslitaleik í höllinni. Bein útsending á RÚV spilar þarna stórt hlutverk, en það er bara staðreynd að oft vantar mikla hvatningu frá stuðningsmönnum til að liðið fái aukin styrk í leik sínum.

Hjá Keflavík var Hörður Axel Vilhjálmsson með 20 stig en Draelon Burns skoraði 16. Hjá Snæfell var Jón Ólafur Jónsson með 23 stig og Sveinn Arnar Davíðsson með 14.