Fréttir

Karfa: Hitt og Þetta | 20. janúar 2012

Stuðningsmaðurinn

Nú ætlum við að byrja með nýjan lið hér á síðunni, fyrir hvern heimaleik munum við fá stuðningsmenn til að skrifa um leikin og fá þeir fullt frelsi með að lýsa leikdegi fyrir okkur.Hér kemur sá fyrsti.

Ég var búnn að horfa á þennan leik lengi á dagatalinu og búinn að bíða eftir honum fullur eftirvæntingar. Já þetta er leikur Keflavíkur og Grindavíkur sem fór fram á Sunnubrautinni á fimmtudeginum 19. janúar kl. 19:15. Framan af degi sinnti ég mínu námi og kíkti í Íþróttahúsið á Ásbrú og tók góða æfingu, Tommi Tomm bauð mér að fara inn í sal að skjóta bolta og handleggsbrjóta Sigga Þorsteins í leiðinni! Gaman að því. Þar sá ég meðal annars okkar fyrrum liðsmann Sigurð Gunnar Þorsteinsson og kastaði á hann góðri kveðju, Gangi þér vel í kvöld, sagði ég. Hann leit upp og þakkaði kærlega fyrir.

Heim á leið hélt ég í næsta nágrenni við íþróttahúsið og hélt áfram að telja niður í að leikurinn myndi hefjast. Ég sat heima og vafraði um netið, hlustaði á tónlist og gerði mitt besta til þess að drepa tímann. Kl. 18:00 var komið að því! Ég gerði mig ferðbúinn og rölti á síðasta strætó dagsins og endaði í íþróttahúsinu rúmlega hálfsjö. Að sjálfsögðu tók Venni þar á móti mér og við áttum gott spjall. Liðin voru komin í upphitun, tónlistin í botni og maður skynjaði að eitthvað magnað væri að fara að gerast. Ég mætti Garðar Erni með búnaðinn sinn og hélt á leið upp í Herbergið þar sem var upphitun fyrir leik, eitthvað sem ég mæli með við alla að koma fyrir leikinn og taka þátt í góðu peppi! Þar voru menn mættir og rakst ég þar á Sævar, Tomma, Steina og fleiri góða en það mættu fleiri láta sjá sig. Þar voru dýrindis lummur líklegast frá Lang Best og menn í góðum gír að spjalla um liðin og komandi leik. Tíu mínútum fyrir leik fór ég svo niður, mætti Bigga og heilsaði honum og fór svo og settist í sætið mitt.

Leikurinn hófst og var nokkuð jafnt með liðunum og staðan jöfn eftir 1. leikhluta. Mætingin í húsið var frábær miðað við ískaldan janúardag og fólk almennt í góðu skapi. Dómarar voru Njarðvíkingurinn Sigmundur og Jón Bender og áttu þeir eftir að fá margar glósurnar það kvöldið frá áhorfendum sem greinilega finnst mun skemmtilegra að amast í dómurunum út af öllu möglegu heldur en að styðja sitt lið. Eftir því sem leið á leikinn þá óx stemninginn meir og meir og eftir góðan kafla í öðrum leikhluta þá voru Keflvíkingar búnir að stinga andstæðinga sína af en því miður þá duttu menn í værukærð og Grindvíkingar unnu sig aftur inn í leikinn. Ekki munaði miklu á liðunum í hálfleik og hafði Maggi þá þegar sett nálægt 20 stigunum og var hann rosalegur í þessum leik og kveikti margsinnis í stuðningsmönnum með tilþrifum sínum.

Valur Orri fékk líka hltuverk eftir óvænt brotthvarf Stevie G og var hann magnaður í þessum leik og æðislegt að fylgjast með honum bæði í vörn og sókn. Á lokakaflanum var spennan svo gríðarleg að hjartað hjá undirrituðum var á yfirsnúning! Því miður fór það svo að Keflavík máttu þola tap með einu stigi og eins og Helgi Jónas sagði eftir leik þá stálu þeir þessu. Eftir svona naumt tap þá ákvað ég að líta björtu hliðarnar og það sem ég var nokkuð viss um eftir úrslitaleikinn í Lengjubikarnum þá er ég alveg viss núna að okkar menn geta vel unnið Grindavíkurliðið og bara öll liðin í þessari deild.

Næsti leikur er í bikarnum á móti Fjölni og væri magnað ef stuðningsmenn fjölmenntu á þann leik að styðja strákana á leið sinni í Laugardalshöllina. Það er allt of langt síðan við höfum verið þar og hvað þá staðið þar uppi sem sigurvegarar. Allir á völlinn og munið...

Áfram Keflavík!