Stuðningsmannaklúbbur KKD Keflavíkur
Nú fara herlegheitin að hefjast á heimaslóðum og því er tilvalið að vekja Keflvíkinga til lífsins og minna þá á að það er hægt að koma að fjárhagslegum stuðningi til Körfuknattleiksdeildar Keflavíkur og ganga í Stuðningsmannaklúbb KKD Keflavíkur.
Verð fyrir einstakling er 3.100 kr. per mánuð, 12 mánuði ársins. Fyrir hjón eru það 5000 kr. per mánuð, 12 mánuði ársins. Inni í þessum pakka fylgir miði í sæti niðri, sem gildir á alla heimaleiki karla- og kvennaliðs Keflavíkur, þar með talin bikar- og úrslitakeppni. Einnig eru veitingar í boði í hálfleik í VIP herbergi stuðningsmanna. Á stórum leikjum er stefnan að fá léttan fyrirlestur frá fróðum mönnum fyrir leiki í VIP herberginu, ásamt því að fá þjálfara til að mæta og spjalla eilítið um liðið fyrir leik.
Einnig mun Tippklúbburinn Lukkustrákar vera áfram innan vébanda stuðningsmanna Keflavíkur, en sá klúbbur mun hittast fyrir hvern heimaleik hjá karlaliði Keflavíkur í vetur. Þar mun verða tippað á umferðirnar (1x2) og spjallað létt um málefni körfuboltans á Íslandi. Viðkomandi þarf að reiða af hendi 100kr. fyrir hvern leik sem hann tippar vitlaust á. Þessi peningur safnast svo í sjóð Tippklúbbsins, en markmið sjóðsins er að koma að uppbyggingu mannafla innan Keflavíkurliðsins. Þar má m.a. nefna fjármögnun á erlendum leikmanni.
Þeir sem hafa áhuga geta mætt upp í hús á næsta heimaleik og skráð sig við innganginn niðri. Hemmi Helga (660-1713) og Biggi Braga (618-5155) verða verndarar Tippklúbbsins í vetur.
Koma svo Keflvíkingar! Sýnið þor og stuðning, með því að styðja við bakið á Körfuknattleiksdeild Keflavíkur í vetur og fá helling í staðinn!
Áfram Keflavík!