Stuðningsmannapistill frá Drummernum
Sælir kæru Keflvíkingar, Snæfellingar og aðrir körfuknattleiks unnendur.Eins og það hefur væntanlega ekki farið framhjá neinum að þá er allt að frétta í viðureign Keflavíkur og Snæfells í úrslitum Iceland Express deildarinnar í ár og mikið gengið á bæði innan vallar sem utan. Stuðningsmenn beggja liða hafa fjölmennt á þá tvo leiki sem hafa farið fram og mun væntanlega aukast mætingin á þá leiki sem eftir eru.
Við Keflvíkingar gerðum okkur ferð í Hólminn fagra í gær þar sem við áttum von á frábærum leik tveggja frábærra liða, en það varð nú ekki reyndin, heldur varð þar endurtekning á leik liðanna í Keflavík í fyrsta leik, nema hvað nú snerist dæmið við.
Við höfum ávallt haft það að leiðarljósi að fyrst og fremst að styðja okkar lið eins og mögulegt er, og haldið góðum samskiptum við velflest þau lið sem við höfum mætt í gegnum tíðina.
Í gær gerðist það að það kastaðist eitthvað í kekki á milli manna í stúkunni, og er maður að heyra mismunandi sögur um herbúðum beggja liða, þar sem meðal annars voru tveir ungir piltar úr Keflavík slegnir í höfuðið af fullorðnum eldri karlmönnum úr Hólminum, menn voru að fá mat yfir sig fyrir neðan Keflavíkurstúkuna og eitthvað fleira í þeim dúr.
Hvað varðar þetta matarmál, að þá veit ég að það atvikaðist þannig að menn voru í einhverjum pirring í stúkunni útaf lélegum leik okkar manna og sparkaði einn einstaklingur í hamborgara á plastdisk sem var á gólfinu fyrir framan hann, OG ÞVI miður rann diskurinn beina leið undir handriðið og á fólkið sem þar sem fyrir neðan. Afar óheppilegt en alls enginn ásetningur í því, það er alveg ljóst.
Menn voru að hafa misskynsöm orð inná milli inná völlinn í gær sem á ekki að heyrast, en það er búið að taka fyrir það og slíkt mun ekki endurtaka sig !
Þessi ungu piltar sem urðu fyrir barðinu á skapi þessara Hólmara er ég nefndi hér að ofan, eru enn undrandi á því, enda gerðu þeir ekki neitt til þess að verðskulda það og leiðinlegt að slíkt hafi gerst.
Svo var það ekki til að bæta ástandið, þegar hið sívinsæla og geysiskemmtilega borgarskot átti sér stað, en það er eins og menn vita venjan að stuðningsmenn beggja liða fái kastað til sín boltum í stúkuna til þess að reyna að krækja sér í eins og eitt stykki utanlandsferð og ávallt gaman að sjá fólk úr röðum beggja liða reyna sig við skotið, en í gær var það svo að boltunum var kastað eingöngu til stuðningsmanna Snæfells og fór það skiljanlega svolítið í menn, en það hefur verið þannig áður í Hólminum, en vonandi bara taka menn það til sín og bæta úr því næst. Þetta er frábær skemmtun og gaman að sjá stuðningsmenn beggja liða saman inná vellinum að reyna sig við skotið.
En allt það sem fór fram í gær var ekki til eftirbreytni og menn hafa verið teknir á teppið fyrir það, og ég get alveg lofað því að í Hólminum á mánudaginn munu menn sjá allt annað til stuðningsmanna Keflavíkur en það sem fór fram í gær.
Stuðningsmenn beggja liða eiga að bera virðingu fyrir andstæðingum sínum sem og þeirra heimavöllum, og er það alveg kýrskýrt að sú hegðun sem átti sér stað í gær verður ekki endurtekin, því lofa ég.
Mikið fjaðrafok hefur verið í kringum rimmu þessara liða í ár útaf kanamálunum, en mönnum fannst það ekki við hæfi að hægt væri að skipta út leikmanni þegar lokaúrslitin sjálf eru þegar hafin, og ekki batnaði það þegar menn komumst á snoðir með það að nágrannar okkar í Njarðvík hefðu aðstoðað Snæfell við þau mál eins og eflaust flestir vita eflaust, hvernig það allt saman fór fram.
Svo núna í dag kom það í ljós að Dre Burns getur væntanlega ekki leikið meira með og voru þá góð ráð dýr, en þá komu Njarðvíkingar aftur til sögunnar og gengu þannig frá málum að við gátum fengið Nick Bradford til okkar í staðinn og þökkum við þeim kærlega fyrir það, og er það afar farsæl lausn úr því sem komið er, en það er vissulega sárt og svekkjandi að missa einn besta leikmann okkar út svona á lokasprettinum. En Nick þekkir þetta allt saman og á án efa eftir að fylla vel í skarð Dre.
En þá kemur að öðrum punkti hjá mér, en mér þykir það einstaklega furðulegt að þessi regla sé nú opin, að menn geti farið þessa leið í lokaúrslitunum. Mér skilst að þetta hafi ekki verið svona áður, en sú regla var víst felld úr gildi fyrir einhverju síðan og því opið fyrir bæði lið að skipta út þessum meiddu Bandaríkjamönnum.
Ég er á því og held að það bara hljóti að gerast að á næsta Ársþingi KKÍ verði algjörega tekið fyrir þetta, enda er búið að vera alltof mikið drama í kringum þetta allt saman og þetta hefur haft mikil áhrif á umgjörð þessara leikja.
Butterfly Effect á vel í þessu samhengi, því að ef Snæfellingar hefðu ekki farið þessa leið með Burton og Ivey, að þá er það alveg morgunljóst að Keflvíkingar hefðu ekki gert þessa breytingu með Dre og Nick, það er alveg klárt.
Breytum þessari reglu og látum liðin bara að spila á þeim mönnum sem komu þeim í úrslitin !
Ég vil að lokum bara koma því á framfæri til allra stuðningsmanna Keflavíkur að við sýnum bæði andstæðingum okkar, dómurum og stuðningsmönnum Snæfells þá virðingu sem þeir eiga skilið, og látum allt skítkast og önnur leiðindi alveg eiga sig.
Við erum í þessu til að hvetja liðið OKKAR, ekki til að lasta aðra.
Tökum vel á móti Snæfellingum á morgun og heyjum skemmtilega & upplífgandi baráttu á pöllunum, og hvetjum okkar lið til sigurs með stemmningu og góðum íþróttaanda !
Virðingarfyllst með ást og virðingu, Jóhann D. Bianco (Drummerinn)