Stuðningsmenn Keflavíkur hittast í Toyotahöllinni fyrir leikinn á fimmtudag
8-liða úrslitin hefjast á fimmtudag þegar Keflavíkurpiltar mæta Stjörnunni í Ásgarði kl. 19.15. Keflavík hefur ákveðið að bjóða stuðningsmönnum sínum upp á rútuferð í Garðabæ þó stutt sé að fara og koma þannig til móts við óskir þess efnis. Munu stuðningsmenn liðsins hittast í Toyotahöllinni kl. 17.00 (VIP herbergi) og verður farið af stað um kl. 18.00 í Garðabæ.
Þeir sem hafa áhuga á að fara með rútunni eru beðnir um að melda sig á stuðningsmannasíðu Keflavíkur á Facebook en aðeins 1000 kr. kostar í ferðina. Stuðningsmenn eru hvattir til að fjölmenna á leikinn og hafa í huga orð Gunnars "Gullbarka" Stefánssonar og Rúnars Júlíussonar hér um árið er þeir félagar sungu "Er liðið fer á völlinn þá fyllist jafnan höllin - við þekkjum öll þá staðreynd að trúin flytur fjöllin".