Fréttir

Körfubolti | 11. mars 2007

Stúlkurnar fengu tvisvar silfur

Um helgina fóru fram bikarúrslit yngri flokka í DHL höllinni í Vesturbænum. KR-ingar stóðu að framkvæmd leikjanna og gerðu það með miklum glæsibrag, öll umgjörð var til mikillar fyrirmyndar hjá þeim röndóttu vestur í bæ.

Keflvískar stúlkur áttu tvö lið í bikarúrslitum þetta árið, í stúlknaflokki og unglingaflokki, í báðum tilfellum gegn Haukum.

Stúlknaflokkurinn hefur ekki náð að sigra Hauka og var því gert ráð fyrir erfiðum leik, eins og kom í ljós. Haukar voru mun betri í fyrri hálfleik og leiddu með 14 stigum, 38-24, þegar leikurinn  var hálfnaður. En Keflavíkurstúlkur gerðu góða atlögu að Haukunum og minnkuðu muninn í eitt stig fyrir lok þriðja leikhluta, 41-42. En þær sprungu á limminu og töpuðu síðasta fjórðungi 6-19 og lokatölur urðu 61-47 fyrir Hauka. Margrét Kara átti stórleik og var allt í öllu hjá Keflavík. Hún gerði 14 stig, tók 27 fráköst, stal 10 boltum og varði 8 skot !!! Hreint ótrúlegar tölur. En það var ekki nóg, því Haukastúlkur höfðu á að skipa sterkari liðsheild. Auk Köru átti Harpa Guðjónsdóttir fínan leik, gerði 16 stig og hirti 10 fráköst. Hjá Haukum var Unnur Tara Jónsdóttir yfirburðamaður, gerði m.a. 22 stig, og var valinn maður leiksins.

Unglingaflokkurinn átti fyrirfram séð mun meiri möguleika á bikartitli en Stúlknaflokkurinn. Enda var sá leikur afar jafn og spennandi allt fram á síðustu sekúndu. Í lokin skildi eitt stig liðin, 65-64 fyrir Hauka, en við upphaf síðasta leikhluta hafði Keflavík átta stiga forystu, 48-40. Keflavík virtist fetinu framar mest allan leikinn sem var mjög hraður frá upphafi. Bæði liðin ætluðu sér að keyra upp hraðann en gerðu sig sek um aragrúa mistaka, ekki síst okkar stúlkur sem töpuðu 26 boltum í leiknum. Í síðasta fjórðungi settu Haukastúlkur niður nokkra þrista og náðu fimm stiga forystu skömmu fyrir leikslok, 65-60. En Bryndís minnkaði muninn í 65-62 og átti síðan þriggja stiga skot þegar rúmar tvær sekúndur lifðu leiks. Brotið var á henni og fékk hún tækifæri á að jafna leikinn með þremur vítaskotum. Fyrstu tvö skotin rötuðu rétta leið en það síðasta geigaði. En Bryndís átti frábæran leik, gerði 30 stig og tók 17 fráköst. Bryndís fékk alls 23 vítaskot í leiknum og skoraði úr 17. Ingibjörg (10st, 8 fr), Margrét Kara (14 fr) og Anna María (10 st) áttu allar ágætis leik. En skotnýting liðsins var slök, ekki síst vegna of mikils æsings í sóknarleiknum, aðeins fóru 17 skot í körfuna af 65 tilraunum, sem telst ekki sérlega gott. Barátta stúlknanna var þó til fyrirmyndar og í sjálfu sér fyrst og fremst óheppni í lokin að ekki skyldi betur fara. Sigrún Ásmundsdóttir, Haukum var valinn maður leiksins, hún gerði 21 stig og tók 19 fráköst, en öðrum fremur var það Pálína Gunnlaugsdóttir sem leiddi Hauka til sigurs á lokasprettinum.

Til hamingju stúlkur með glæisilega frammistöðu, þótt tap í bikarúrslitum sé ávallt svekkjandi. En stúlkurnar stóðu sig vel og verða bara betri og betri. Við óskum Haukastúlkum til hamingju með bikarana tvo.

ÁFRAM KEFLAVÍK!