Fréttir

Styttist í toppslag KR og Keflavíkur - Stutt viðtal við Gunnar Ólafs
Karfa: Karlar | 20. febrúar 2014

Styttist í toppslag KR og Keflavíkur - Stutt viðtal við Gunnar Ólafs

Hún er farin að styttast verulega biðin eftir toppslag Domino´s deildar karla en á mánudaginn mætast KR og Keflavík í DHL höllinni kl. 19.15. Liðin eru jöfn að stigum en þar sem KR hafði betur í fyrri leik liðanna í TM-Höllinni eru þeir í 1. sæti og Keflavík í 2. sæti. Mikilvægi leiksins er því gríðarlegt og má búast við fullu húsi og frábærri stemmningu. 

Heimasíða Keflavíkur heyrði í Gunnari Ólafssyni og fékk hann til að svara nokkrum spurningum en Gunnar hefur komið einst og stormsveipur inn í Keflavíkurliðið á sínu fyrsta ári. Hann hefur tvöfaldað stigaskor sitt frá því er hann lék með Fjölni og farið úr 5 stigum að meðaltali í 10 með Keflavík auk þess að gefa um 3 stoðsendingar í leik og spila fanta vörn. 

Styttist í toppslaginn við KR þar sem Keflavík á harma að hefna frá fyrri umferð, hvernig leggst þetta í þig?
Leikurinn leggst vel í mig. Ég hlakka til að mæta þeim aftur.
 
Hvað þarf að leggja áherslu á til að fara með sigur úr Vesturbænum?
Þurfum að treysta á liðsheildina og hörkuvörn.
 
Nú hefur Martinn Hermannsson verið að spila eins og engill undanfarið. Myndir þú telja að hann sé þeirra helsta vopn ásamt Pavel eða eru fleiri sem þarf sérstaklega að varast?
Já, ég mundi segja að Martin væri eitt af þeirra helstu vopnum, en þeir eru með mjög breiðan hóp eins og við og það þarf að varast marga.
 
Hvaða styrkleika höfum við fram yfir KR?
Bæði lið eru auðvitað mjög sterk. Við erum samt með Mike Craion, sem er að mínu mati og margra annarra besti erlendi leikmaðurinn í deildinni. Hann er líka búinn að vera allt tímabilið hjá okkur á meðan þeir hafa tekið ágætan tíma í finna rétta kanann fyrir liðið sitt. 
 
Að lokum, hvernig lýst þér á framhaldið í deild og úrslitakeppni?
Lýst vel á framhaldið. Ég er mjög spenntur fyrir úrslitakeppninni en við þurfum líka að halda áfram að vera einbeittir í deildinni og klára hana af krafti.
 
Mynd: Gunnar Ólafsson í leik gegn Þór Þorlákshöfn. Myndin er fengin að láni frá félögum okkar á www.karfan.is - besta körfuboltafjölmiðli í heimi!