Fréttir

Karfa: Karlar | 9. apríl 2012

Sumarfrí staðreynd hjá körlunum

Það er óhætt að segja að sumarfríið hafi komið snemma fyrir karlalið Keflavíkur á þessu tímabili, en þeir töpuðu í framlengdum leik gegn Stjörnunni á fimmtudaginn. Lokatölur leiksins voru 94-87. Svekkjandi niðurstaða fyrir Keflavíkurliðið og sumarfrí staðreynd.

Bæði lið þekkja stressandi aðstæður og var gargandi stemmning í húsinu. Lítið var um stigaskor í upphafi leiks en Keflvíkingar voru alltaf skrefinu á undan. Ótrúlegt atvik átti sér stað undir lok 1. leikhluta, en þá féll Fannar Helgason í gólfið með boltann. Hann ákvað að gefa Vali Orra 2 olnbogaskot beint í andlitið með lélegum lúmskum tilburðum. Það merkilega við þetta allt saman að enginn af þeim þremur dómurum sem voru að fylgjast með leiknum, sá atvikið og ekkert var dæmt. Myndbandsupptökur af atvikinu dæma það algjörlega og væri hægt að láta mörg ljót orð falla hér.

Staðan í hálfleik var 37-38 og andrúmsloftið rafmagnað.

Keflvíkingar héldu áfram mikilli baráttu í seinni hálfleik og voru þeir komnir með 8 stiga forystu þegar að 4. leikhluti hófst. Þar skiptust á skin og skúrir, því Stjörnumenn voru ekki á leið í sumarfrí og jöfnuðu leikinn þegar tæp mínúta var eftir. Keflvíkingar áttu lokasóknina og fór hún forgörðum. Leikurinn fór því í framlengingu og þar réðu Stjörnumenn ferðinni. Þeir enduðu með sigurinn í lúkunum og reyndust öruggir á vítalínunni undir lokin. Lokatölur því 94-87.

Jarryd Cole var atkvæðamestur með 27 stig og 12 fráköst. Charles Parker var með 24 stig, Maggi Gun 12 og Valur Orri 10.

Sumarfrí því staðreynd hjá bæði karla- og kvennaliði Keflavíkur í ár og er það eitthvað sem við eigum ekki að venjast. Ítarleg naflaskoðun þarf að eiga sér stað fyrir næsta tímabil og er alltaf hægt að betrumbæta það sem í ólagi er.

 


Cole var atkvæðamestur á fimmtudaginn með 27 stig