Fréttir

Körfubolti | 16. mars 2007

SÝNUM STYRK! - Bréf frá formanni deildarinnar

Jæja kæru Keflvíkingar, eftir langan og strangan vetur er meistaraflokkurinn okkar í karlaflokki kominn í ansi erfiða stöðu í úrslitakeppni Iceland Express deilarinnar.

Liðið okkar var sterkt í haust, en töluvert ólán, meiðsli og eigin klaufaskapur hafa gert að verkum að árangurinn hefur ekki verið í samræmi við það sem við eigum að venjast.

Það þarf ekki að tíunda útlendingavandræðin og meiðslasöguna, við okkur blasir á morgun einfaldlega sú staðreynd að leikurinn á morgun getur orðið okkar síðasti á þessari leiktíð. En staðreyndin er líka sú að leikurinn á morgun getur hæglega orðið upphafið að glæstum lokaspretti þar sem allt er mögulegt.

Við höfum oft lent í erfiðleikum en unnið okkur upp úr þeim með samhentu átaki, baráttu og sigurvilja. Allt er ennþá mögulegt, gleymum því ekki.

Ég er sannfærður um að ef leikmenn og áhorfendur leggjast á eitt, þá getum við vakið upp sigurvegarann sem sefur værum blundi inní okkur um þessar mundir.

Þess vegna vil ég skora á keflvíska stuðningsmenn að fjölmenna í Sláturhúsið á morgun og styðja kröftuglega við bakið á drengjunum. Ég vil líka skora á drengina í liðinu að minnast allra þeirra glæstu sigra sem við höfum unnið í sameiningu og sækja kraft í þær minningar.

Heimavöllurinn okkar hefur verið nánast ókleyfur múr fyrir andstæðinga svo árum skiptir og okkur ber að berjast til síðasta blóðdropa til að verja hann. Heiður okkar er í húfi!

Gleymum því ekki að það er engin skömm í því að tapa fyrir öflugum andstæðingi, en það er bara svo miklu meira gaman að vinna!

Baráttukveðja, Hrannar.