Fréttir

Karfa: Karlar | 29. mars 2010

Tap á króknum

Tekið af karfan.is:

Tindastóll og Keflavík mættust í kvöld í öðrum leik liðana í átta liða úrslitum. Eftir sigur heimamanna í Keflavík á fimmtudaginn dugði Stólunum ekkert annað en sigur í kvöld til að knýja fram oddaleik. Búist var við hörkuleik og sveik hann ekki þær væntingar. Hann bauð upp á góða hittni, mikinn hraða á köflum og margar flottar körfur og mikla spennu á lokamínútunum.
 
 
Hjá heimamönnum hófu leik þeir Axel, Friðrik, Cedric, Helgi Rafn og Donatas. Hinu megin voru fyrstu fimm þeir Gunnar, Draelon, Uruele, Hörður og Sigurður.  Stólarnir skoruðu fyrstu fjögur stig leiksins, en síðan fór skothöndin að hitna hjá Keflvíkingum og hver þristurinn af öðrum leik dagsins ljós. Fór þar Draelon Burns fremstur. Stólarnir voru þó ekkert að láta gestina stinga sig alveg af og héngu í þeim. Staðan að loknum fyrsta fjórðungi var 18 – 24 og Keflavík búið að setja niður 6 þrista.

Tindastóll náði lítið að saxa á þennan mun í öðrum leikhluta. Keflavík náði mest 14 stiga forskoti í stöðunni 32 – 46 og aftur 35 – 49, en þá var rúm mínúta eftir. Þá tóku heimamenn aðeins við sér. Svavar setti niður 5 stig á nokkrum sekúndum, en Hörður svaraði með tveimur vítum.  Stólarnir misnotuðu næstu sókn, en fengu innkast eftir mistök hjá Keflvíkingum og nokkrar sekúndur eftir. Þeir komu boltanum á Friðrik Hreinsson sem smellti einum þrist niður alveg á bjöllunni. Staðan því 43 – 50 í hálfleik og aðeins farið að hitna í kolunum milli leikmanna, enda mikið í húfi.  Keflvíkingar bætti við þremur þristum í þessum leikhluta, en stigaskorið dreifðist nokkuð jafnt milli þeirra fyrir utan Draelon Burns sem var kominn með 17 stig. Stóla megin voru Rikki og Cedric atkvæðamestir í fyrri hálfleik, Rikki með 12 stig og Cedric 10.

Gestirnir náðu að auka forskotið aftur yfir tíu stig í upphafi síðari hálfleiks. Þegar fjórar mínútur voru liðnar af þriðja leikhluta fékk Helgi Rafn dæmda á sig villu og í kjölfarið óíþróttamannslega villu eftir átök við Uruele hjá Keflvík. Sá náði fram hefndum í næstu sókn og nældi sér líka í óíþróttamannslega villu. Hitastigið á vellinum greinilega orðið nokkuð hátt. Munurinn hélst þó svipaður og rokkaði á 8 – 12 stigum. Stólarnir urðu fyrir áfalli þegar rúmar fjórar mínútur voru eftir af leikhlutanum þegar Isom fékk sína fjórðu villu og varð að setjast á bekkinn. Við það losnaði nokkuð um Hörð Axel sem fór að setja niður þrista í gríð og erg.  Skoraði hann fjóra þrista það sem eftir lifði fjórðungsins. Sem betur fer fyrir Stólana var Rikki orðinn heitur og náði að halda í horfinu með hjálp frá Svavari. Staðan 70 – 78 þegar einn leikhluti var eftir.  

Svavar opnaði svo leikinn upp á gátt með tveimur þristum í upphafi fjórða leikhluta. Hörður var ekki hættur og svaraði með einum slíkum. Lítið var skorað næstu mínúturnar, en um miðjan leikhlutann leiddu Keflvíkingar með 7 stigum í stöðunni 78 – 85. Donatas skoraði þá tveggja stiga körfu og fékk víti að auki sem hann nýtti. Uruele svaraði með tveimur stigum og staðan 81 – 87 og rúmar fjórar og hálf mínúta eftir.  Þá hófst loka atlaga heimamanna. Cedric skoraði tvö stig og í kjölfarið fylgdu fimm stig í röð frá Rikka og eitt varið skot að auki frá honum og Stólarnir komnir yfir 88 – 87 og allt að verða vitlaust í Síkinu. Guðjón tók þá leikhlé til að reyna að koma sínum mönnum aftur á sporið. Næstu tvær mínútur skiptust liðin á körfum og þegar ein og hálf mínúta var eftir var staðan 92 – 91 og Kalli tók leikhlé fyrir heimamenn.  Stólarnir fóru í sókn, en Cedric fékk dæmda á sig sóknarvillu og þar með sína fimmtu villu og það fór um heimamenn.  Keflavík fór í sókn, en Hörður náði ekki að skora, taldi þó hafa verið brotið á sér en ekkert var dæmt og tæp mínúta eftir.  Stólarnir í sókn sem endaði með því að Sigmar Logi sem komið hafði inn á fyrir Cedric reif sig í gegn á endalínunni og skoraði líklega mikilvægustu tvö stig sín hingað til og þau einu í leiknum. Staðan 94 – 91. Þarna voru 34 fjórar sekúndur eftir og Guðjón tók aftur leikhlé. Að því loknu hélt Keflavík í sókn, en missti boltann og brutu síðan tvívegis af sér til að koma Stólunum á vítalínuna. Við það fengu Uruele og Hörður báðir sínar fimmtu villur. Sigmar Logi fór á línuna, en brást bogalistin í báðunum skotunum. Enn voru tíu sekúndur eftir, en þær náðu Keflvíkingar ekki að nýta og Stólarnir lönduðu sætum sigri á heimavelli og komu einvíginu í oddaleik næstkomandi fimmtudag, Skírdag. Bestur heimamanna var Friðrik Hreinsson með 25 stig og frábæra skotnýtingu. Næstir honum komu Svavar, Cedric og Donatas, allir með 17 stig. Donatas var með 14 fráköst að auki. Hjá Keflavík var Hörður Axel sterkur með 25 stig, þar af 7 þrista. Draelon Burns skilaði jafnmörgum stigum og 8 fráköstum í viðbót.

Stigaskor Tindastóls: Friðrik 25, Svavar 17, Cedric 17, Donatas 17, Axel 7, Helgi Rafn 5, Helgi Freyr 4 og Sigmar Logi 2.

Keflavík: Hörður 25, Draelon 25, Sigurður 10, Uruele 9, Jón 7, Gunnar 7, Sverrir 6 og Þröstur 2.

Dómarar voru þeir Sigmundur Már Herbertsson og Davíð Kr. Hreiðarsson og skiluðu sínu nokkuð vel þó heimamenn væru ekki alltaf hrifnir af þeirra dómum.

Áhorfendur um 400.

Texti: JS.