Fréttir

Karfa: Karlar | 3. desember 2009

Tap gegn KR

Keflvíkingar töpuðu sínum öðrum leik í röð í Iceland Express-deildinni þegar þeir tóku á móti KR í kvöld. Leikurinn byrjaði ekki gæfulega, þar sem KR-ingar komust í 0-15 og sóknarleikurinn hjá Keflavík í molum. Keflvíkingar sýndu mikinn styrk þegar þeim tókst að saxa á forskotið og staðan eftir fyrsta leikhluta var 17-24 fyrir KR-ingum. KR-ingar héldu áfram að sækja hart að Keflvíkingum, en náðu þó aldrei að hrista Keflvíkinga almennilega af sér. Deiglan hjá Keflvíkingum skilaði sér, því staðan í hálfleik var 47-50. Í byrjun 3ja leikhluta skiptu liðin á því að hafa forskotið og staðan í lok fjórðungsins var 71-74 fyrir KR. Síðasti leikhlutinn var æsispennandi, en það munaði einungis einu stigi á liðunum þegar tæplega 3 mínútur lifðu eftir af leiknum. Keflvíkingar komust hins vegar ekki lengra og leyfðu KR-ingum að sigla auðveldlega í átt að sigrinum, lokatölur 85-100 fyrir KR.

Keflvíkingar spiluðu fína vörn á köflum sem kom KR-ingum í opna skjöldu, en þeir gerðu mörg klaufaleg mistök í sóknarleiknum sem skilaði töpuðum bolta. Einnig voru mörg einföld skot undir körfunni sem fóru forgörðum. Liðið lítur engu að síður vel út og þrír mjög erfiðir leikir að baki. Næst er það Valur í Subway-bikarnum á laugardaginn í Vodafone höllinni, leikurinn hefst klukkan 16:00.

Hjá Keflavík var Hörður Axel Vilhjálmsson stigahæstur með 21 stig, en á eftir honum kom Sigurður Gunnar Þorsteinsson með 19 stig. Hjá KR átti Tommy Johnson góðan leik og skoraði hann 29 stig, en á eftir honum kom Fannar Ólafsson með 23 stig.