Fréttir

Karfa: Karlar | 18. október 2010

Tap gegn Stjörnunni í andlausum leik

Keflvíkingar fengu Stjörnumenn í heimsókn í kvöld, en leikurinn var háður í Toyota Höllinni. Deyfð var yfir leiknum hjá báðum liðum, en svo fór að lokum að Stjörnumenn lönduðu sigri 69-78.

Leikurinn byrjaði þó fjöruglega og skiptust liðin á að taka forystu. Staðan eftir 1. leikhluta var 20-23. Í öðrum leikhluta héldu liðin uppteknum hætti og settu Stjörnumenn smá kraft í leikinn undir lok leikhlutans, en þeir leiddu í hálfleik 32-38. Í 3. leikhluta héldu Stjörnumenn forystunni, en Keflvíkingar voru á köflum til alls líklegir og nálægt að komast upp að hlið andstæðinganna. En Stjörnumenn voru alltaf með svar og leiddu eftir leikhlutann 49-59. Í 4. leikhluta gáfu Stjörnumenn ekkert eftir, en Keflvíkingar náðu þó að minnka muninn í 3 stig þegar um 5 mínútur voru eftir af leikhlutanum. Lengra komust þeir þó ekki og Stjörnumenn fögnuðu sigri.

Keflvíkingar léku án Valentino Maxwell, en kappinn ætti að fara að stíga upp úr meiðslum sínum hvað og hverju. Gunnar Einarsson var atkvæðamestur með 18 stig, Hörður skoraði 17 og Siggi Þorsteins 16. Hjá Stjörnunni var Jovan Zdravevski með 21 stig og 11 fráköst. Marvin Valdimarsson gerði 17 stig.

Næsti leikur Keflvíkingar er gegn Hamar í Hveragerði, en leikurinn er 24. október næstkomandi (sunnudag).