Tap hjá drengjum
Drengjaflokkur fór í Borgarnes í gærkvöldi og lék við Skallagrímsmenn um það hvort liðið héldi þriðja sætinu á Íslandsmótinu, en liðin voru jöfn í 3-4 sæti í A-riðli drengjaflokks. Heimamenn hófu leikinn af krafti og leiddu 10-4 eftir fimm mínútna leik, en við jöfnuðum og komumst yfir 12-17 og leiddum leikinn eftir það. Eftir fyrsta leikhluta stóð 18-24 og í hálfleik stóð 30-42. Skallagrímsmenn eru með hörku lið í þessum flokki. Hávaxna og kraftmikla stráka. Við vorum hinsvegar að leika skynsamlega og héldum þeim fyrir aftan okkur allan seinni hálfleikinn. Eftir þrjá leikhluta stóð 44-51 og við enn við stjórnina. Í stððunni 48-55 og fjórar mínútur eftir, fékk Almar sína fimmtu villu eftir tvær ódýrar villur. Munaði um minna upp á frákastastöðu okkar á móti hávöxnum leikmönnum skallana. Þeir gengu á lagið, náðu að jafna og komast í fyrsta skipti yfir, frá í fyrsta leikhluta, þegar 14 sekúndur lifðu leiks. Okkar drengir klúðruðu svo síðasta tækifærinu til að komast yfir og eins stigs tap 64-63 því staðreynd í annars ágætum leik. Þakka ber Skallagrímsmönnum fyrir góða dómgæslu, en liðin sjá sjálf um að skipuleggja dómgæslu í þessum aldursflokki. Ekki er algegnt að liðin mæti með alvöru reynslubolta eins og Einar Skarphéðinsson og Guðbjörn Konráðsson í að dæma. Var þessi leikur sá best dæmdi hjá okkur í allan vetur.
Stigaskor okkar leikmanna:
Bjarki Rúnarsson 3, Andri þór Skúlason 6, Guðmundur Gunnarsson 28, Sigurður Guðmundsson 2 Alfreð Elíasson 10 og Almar Guðbrandsson 14.
Eðvald, Gísli og Kristján náðu ekki að skora þetta kvöld þrátt fyrir ágæta innkomu í leikinn.
Vítanýting liðsins var 11/20 og þristarnir urðu 6 og átti Gummi 4 af þeim.
Næsti leikur þessara drengja verður þriðjudag að viku liðinni hér heima á mót Fjölnisdrengjum sem að leiða A-riðilinn.
Áfram Keflavík