Tap í fyrsta leik - Stuðnings óskað frá öllum Keflvíkingum á sunnudag
Keflavík tapaði í gær fyrsta leiknum í rimmunni við Stjörnuna í 8-liða úrslitum Domino´s deildarinnar í körfubolta. Eftir frábæran 1. leikhluta af hálfu Keflvíkinga, þar sem vörnin var aðalsmerki liðsins, jafnaðist leikurinn nokkuð og slaknaði á vörninni. Fór það svo að Stjarnan leiddi með fjórum stigum í hálfleik, 54-50. Þriðji leikhluti gerði svo útslagið hjá Keflavík þar sem liðið missti Stjörnuna frá sér í kjölfar þess að menn hættu að spila saman sem lið og misstu einbeitinguna. Fór það svo að Stjarnan sigraði 102-86. Bestu leikmenn Keflavíkur voru sem fyrr þeir Michael Craion og Darrel Lewis en mikið dró af þeim fyrrnefnda í síðari hálfleik eftir frábæra byrjun. Þá átti Valur Orri fínan leik auk þess sem Ragnar Gerald Albertsson, Almar Guðbrandsson og Snorri Hrafnkelsson áttu fínar innkomur af bekknum en Ragnar var óhemju óheppinn með tvö þriggjastigaskot í fyrri hálfleik sem bæði voru komin ofan í körfuna en einhverjir vættir sáu til þess að þau skriðu aftur upp úr...
Næsti leikur liðanna er á sunnudaginn kl. 19.15 í Toyotahöllinni. Biðlum við til Keflvíkinga að styðja við bakið á strákunum í þeim leik því það er ljóst að drengirnir ætla að tryggja sér úrslitaleik í einvíginu. Stuðningurinn og stemmningin skiptir þar gríðarlega miklu máli. Er fólk hvatt til að leggja leið sína í Toyotahöllina með stemmninguna og trúnna að vopni og aðstoða við að tryggja liðinu þriðja leikinn!
ÁFRAM KEFLAVÍK