Fréttir

Karfa: Karlar | 31. mars 2012

Tap í fyrsta leik - þrátt fyrir góða baráttu

Keflvíkingar spiluðu sinn fyrsta leik í 8-liða úrslitum Iceland Express deild karla í gærkvöldi þegar þær voru mættir í Garðabæ. Þar voru Stjörnumenn gestgjafar og allt stefndi í hörkuleik. Svo fór að Stjörnumenn höfðu betur eftir betri sprett á lokakafla leiksins, en lokatölur leiksins voru 95-87 fyrir Stjörnunni.

Karfan.is var með góða úttekt á leiknum og verður hún fengin að láni hér:

Það var Stjarnan sem hafði betur í hörku rimmu milli tveggja frábæra liða í Garðabænum í kvöld. Liðin skiptust á að leiða leikinn en Keflavík hafði þó frumkvæðið lengst af. Keflavík byrjaði leikinn af krafti og höfðu yfir eftir fyrsta leikhluta en liðin skiptust á að leiða leikinn eftir það. Marvin Valdimarsson og Keith Cothran fóru fyrir sínu liði og skoruðu saman 47 stig eða helming stiga liðsins. Justin Shouse var stórkostlegur í leik Stjörnunnar og gaf 16 stoðsendingar auk þess að skora 16 stig í leiknum. Þetta eru flestar stoðsendingar sem gefnar hafa verið á þessu tímabili í Iceland Express deild karla. Í liði Keflavíkur var það Jerryd Cole sem var nánast óstöðvandi undir körfunni en hann hristi af sér alla þá varnarmenn sem Stjarnan setti honum til höfuðs og skoraði 27 stig í leiknum og hirti 11 fráköst.
Keflavík byrjar leikinn betur, hirti strax tvö sóknarfráköst á fyrstu tveimur mínútunum sem skilaði þeim fjórum stigum. Þegar þrjár mínútur voru liðnar höfðu þeir náð 7 stiga forskoti, 7-12. Valur Orri Valsson hafði þá skellt í tvo þrista. Stjarnan mætti svo til leiks þegar Marvin Valdimarsson tók sig til og setti átta stig í röð fyrir Stjörnuna, 16-16, og þrjár mínútur eftir af fyrsta leikhluta. Keflavík tók leikhlé í þeirri stöðu og gerði Sigurður Ingimundarson þar vel í að kveikja í sínum mönnum sem voru aftur komnir með 4 stiga forskot þegar ein og hálf mínúta var eftir, 18-22. Stjarnan jafnaði metin í 22-22 þegar 10 sekúndur voru eftir. Charles Paker sá þó til þess að Keflaví leiddi leikinn með lokaskoti leikhlutans, nokkuð fyrir utan þriggja stiga línuna og þannig stóðu tölur eftir einn leikhluta, 22-25.
Keflavík hélt uppteknum hætti í öðrum leikhluta og leiddu leikinn eftir þrjár og hálfa mínútu með fjórum stigum, 28-32. Stjarnan virtist ekki komast mikið nær en það fyrr en undir miðbik leikhlutans. Þá komust þeir yfir í fysta skiptið í langan tíma þegar Keith Cothran kom þeim í 33-32. Keith Cothran lét mikið fyrir sér finna á þessum tímapunkti og skoraði 7 stig í röð fyrir Stjörnuna en Keflavík lét það ekki á sig fá og var aldrei langt undan. Þegar fjórar mínútur voru eftir af fyrri hálfleik voru liðin hnífjöfn, 40-40, og farið að hitna í húsinu. Liðin skiptust á að skora næstu mínútur og setti Keith Cothran meðal annars eina glæsilegustu troðslu sem sést hefur í úrslitakeppninni í ár. Stjarnan tók leikhlé þegar ein mínúta var eftir og jafnt á öllum tölum, 45-45. Hvorugu liðinu tókst að skora á lokamínútunni og því stóðu tölur þannig í hálfleik.
Stigahæstur í liði Stjörnunnar í hálfleik var Keith Cothran með 16 stig en næstu menn voru Marvin Valdimarsson með 11 stig og Sigurjón Lárusson með 6 stig. Hjá Keflavík var Jerryd Cole með 13 stig en næstir voru Charles-Michael Parker með 11 stig og Valur Orri Valsson með 9 stig hvor.
Keflavík byrjaði þriðja leikhluta á tveimur þristum sem Stjarnan gat ekki svarað. Jerryd Cole bætti svo við næstu tveimur stigum og Keflavík var komið með 8 stiga forskot, 45-53. Stjarnan svaraði með næstu 5 stigum leiksins á örskömmum tíma. Það var farin að færast harka í leikinn, olnbogar farnir að fljúga og menn farnir að láta dómarana heyra það. Þegar þriðji leikhluti var hálfnaður höfðu Keflvíkingar fjögurra stiga forksot, 54-58. Stjarnan átti virkilega góðan sprett undir lok þriðja leikhluta og komust aftur yfir í stöðunni 67-65 en Stjarnan hafði þá sett þrist þrjár sóknir í röð og stemmingin var öll þeirra megin. Keflavík tók þá leikhlé og náði að jafna leikinn í stöðunni 69-69. Stjarnan átti seinustu tilraun þriðja leikhluta en Justin Shouse brást bogalistin og það var því jafnt þegar einn leikhluti var eftir.
Liðin skiptust á að leiða leikinn á fyrstu mínútum fjórða leikhluta en Keflavík tók fljótt frumkvæðið. Með Jerryd Cole og Charles Michael Parker í broddi fylkingar voru þeir nánast óstöðvandi. Þegar fjórði leikhluti var hálfnaður munaði einu stigi á liðunum, 75-76. Stjarnan tók svo aftur forskotið þegar þrjár mínútur voru eftir, 81-78 með fáránlegum "fade-away" frá Justin Shouse. Stuðningsmenn Stjörnunnar létu vel í sér heyra og Keflavík tók leikhlé. Þetta forskot gaf Stjarnan ekki frá sér það sem eftir lifði leiks og það var sama þó Keflavík reyndi að setja heimamenn á línuna þá minnkaði forskotið ekki.
Sóknarleikur Keflavíkur einkenndist af illa ígrunduðum skotum sem skilaði þeim litlu. Það var því Stjarnan sem fór með sigur af hólmi í fyrsta leik og geta sent Keflavík heim með sigri í Keflavík á mánudaginn í næstu viku.
Punktar úr leiknum :
- Kjartan Atli Kjartansson, fyrrverandi leikmaður Stjörnunnar, var kynnir kvöldins á leiknum og sinnti sýnu starfi af stakri snilld.
- Jovan Zdravevski var í bullandi villuvandræðum í kvöld og náði sér í fyrstu tvær villurnar á aðeins 1 mínútu og 13 sekúndum.
- Charles Parker spilaði í 39 mínútur og 59 sekúndur samkvæmt leiksskýrlsu, hann fékk því hvíld í eina sekúndu í leiknum.
- Justin Shouse splæsti í 16 stoðsendingar og 16 stig í leiknum, en þar bætti hann sinn besta árangur á tímabilinu um eina stoðsendingu. Hann gaf 15 stoðsendingar í leik gegn Val 27. janúar síðastliðin.
- Justin gaf seinast 16 stoðsendingar í leik Stjörnunnar gegn Þór Ak. 6 október 2008. Aðeins Pavel Ermolinskij hefur gefið fleiri stoðsendingar en hann síðan tímabilið 2008-2009, 17 stykki í margfrægum framlengdum leik KR gegn Keflavík í úrslitakeppninni í fyrra.
 
Keflavík: Jarryd Cole 27/11 fráköst, Charles Michael Parker 19/6 fráköst, Magnús Þór Gunnarsson 18/6 stoðsendingar, Valur Orri Valsson 12, Almar Stefán Guðbrandsson 7/5 fráköst, Halldór Örn Halldórsson 4/4 fráköst, Sigurður Friðrik Gunnarsson 0, Ragnar Gerald Albertsson 0, Andri Daníelsson 0, Hafliði Már Brynjarsson 0, Gunnar H. Stefánsson 0, Guðmundur Auðunn Gunnarsson 0.


Stjarnan: Keith Cothran 25/7 fráköst, Marvin Valdimarsson 22, Justin Shouse 16/16 stoðsendingar, Jovan Zdravevski 12, Sigurjón Örn Lárusson 8/4 fráköst, Renato Lindmets 7/10 fráköst, Fannar Freyr Helgason 3, Dagur Kár Jónsson 2, Magnús Bjarki Guðmundsson 0, Sigurbjörn Ottó Björnsson 0, Aron Kárason 0, Tómas Þórður Hilmarsson 0.

 


Jarryd Cole var atkvæðamestur í gær með 27 stig og 11 fráköst