Fréttir

Karfa: Konur | 24. mars 2012

Tap í fyrsta leik gegn Haukastúlkum

Fyrsti leikurinn í úrslitakeppni Iceland Express deild kvenna fór fram í Toyota Höllinni í dag, en þá voru Haukastúlkur mættar í húsið. Haukastúlkur hafa verið að styrkja liðið sitt undir lok tímabils og verið mikill stígandi í liðinu. Það sýndi sig í húsinu í dag þegar þær sigruðu Keflavíkurstúlkur, en lokatölur leiksins voru 54-63.

Það voru Keflavíkurstúlkur sem byrjuðu leikinn betur í dag og voru þær komnar í 8-2 forystu eftir rúmar 2 mínútur. Þá hrukku Haukastúlkur í gang og fóru að saxa á forskotið. Þær leiddu eftir 1. leikhluta 22-18. Haukar héldu áfram í öðrum leikhluta með góðu flæði og var mikil barátta í liðinu. Boltinn fékk að flæða vel og voru þær hreinlega að sundurspila okkar lið á köflum. Staðan í hálfleik var 27-35.

Meira líf færðist í leik Keflvíkinga í seinni hálfleik og voru þær búnar að minnka muninn niður í 5 stig fljótlega í 3. leikhluta. Haukastúlkur héldu þó sínu striki eftir það og hirtu m.a. mikið af sóknarfráköstum sem gaf þeim oftar en ekki gott forskot á Keflavík. Keflavík hélt áfram að reyna að naga á forskotið en viljinn var því miður meiri hjá Haukastúlkum út leikinn og lönduðu þær því sigri í þessum fyrsta leik 54-63 eins og fyrr segir.

Næsti leikurinn í einvíginu fer fram á Ásvöllum á mánudaginn kl. 19:15. Allir hvattir til að mæta og öskra Keflavíkurstúlkur til sigurs!

Stigaskor leiksins í dag:

Keflavík: Jaleesa Butler 23/12 fráköst/4 varin skot, Pálína Gunnlaugsdóttir 11/5 fráköst, Eboni Monique Mangum 7, Birna Ingibjörg Valgarðsdóttir 4/5 fráköst, Helga Hallgrímsdóttir 4/4 fráköst, Telma Lind Ásgeirsdóttir 3, Sandra Lind Þrastardóttir 2, Hrund Jóhannsdóttir 0, Lovísa Falsdóttir 0, Soffía Rún Skúladóttir 0, Sara Rún Hinriksdóttir 0, Aníta Eva Viðarsdóttir 0.

Haukar:
Tierny Jenkins 27/20 fráköst, Jence Ann Rhoads 14/9 fráköst/5 stoðsendingar, Gunnhildur Gunnarsdóttir 8, Margrét Rósa Hálfdanardóttir 7/5 fráköst, Íris Sverrisdóttir 5, Guðrún Ósk Ámundardóttir 2/4 fráköst, Sara Pálmadóttir 0, María Lind Sigurðardóttir 0, Inga Sif Sigfúsdóttir 0, Ína Salóme Sturludóttir 0, Auður Íris Ólafsdóttir 0.


Tierny Jenkins var erfið viðureignar í dag (mynd: vf.is)