Körfubolti | 4. apríl 2007
Tap í fyrsta leik í einvíginu gegn Haukum
Keflavík tapaði í kvöld 87-78 fyrir Haukum í fyrsta leik liðanna í úrslitum um Íslandsmeistarabikarinn. Haukastelpur voru með 2. stiga, forustu í hálfleik 46-44. Þrjá sigra þarf til að verða Íslandsmeistari og fer næsti leikur fram í Keflavík á laugardag kl. 16.00
Frétt um leikinn á vf.is
Bryndís Guðmundsdóttir gerði fyrstu stig leiksins og kom gestunum í 0-2 en Haukar svöruðu þá með 8 stigum í röð. Keflavík náði þó að jafna metin að nýju í 8-8 en við það tóku Kristrún Sigurjónsdóttir og Ifeoma Okonkwo leikinn í sínar hendur og gerðu næstu 10 stig Hauka og þar voru tvær þriggja stiga körfur frá Kristrúnu sem vógu þungt. Staðan að loknum fyrsta leikhluta var 26-20 Haukum í vil en Bryndís Guðmundsdóttir fór snemma í fyrsta leikhluta á bekkin því hún var komin með tvær villur. Skotnýting Keflavíkur í upphafsleikhlutanum var afleit og þá bætti ekki úr skák að liðið virtist lítinn áhuga sýna í sóknarfráköstum.
Keflavík skipti yfir í svæðisvörn í upphafi annars leikhluta og Haukar svörðu með því að gera sex fyrstu stigin í 2. leikhluta og staðan 32-20 fyrir Hauka. Heimamenn bættu í og í stöðunni 42-26 var eins og Haukaliðið teldi sigurinn í höfn og Íslandsmeistararnir fóru að slaka á. Keflavík pressaði vel á Hauka og unnu nokkra góða bolta sem gáfu körfur og söxuðu jafnt og þétt á forskot heimamanna. Takesha Watson fór mikinn í áhlaupi Keflavíkur og stal hverjum boltanum af öðrum. Þegar um ein og hálf mínúta var til hálfleiks náðu Keflvíkingar að minnka muninn í 43-41 og höfðu þá gert 15 stig gegn einu frá Haukum. Liðin gengu svo til hálfleiks í stöðunni 46-44 fyrir Hauka og góður lokasprettur gestanna gaf fín fyrirheit fyrir síðari hálfleikinn.
Sigrún Ámundadóttir gaf tóninn strax í upphafi þriðja leikhluta með þriggja stiga körfu fyrir Hauka og staðan 49-44. Nokkur spennuskjálfti virtist hreiðra um sig í liðunum sem skoruðu lítið fyrstu fjórar mínútur leikhlutans. Haukar höfðu þó frumkvæðið en Birna Valgarðsdóttir minnkaði muninn í 55-50 þegar tæpar fjórar mínútur voru eftir af leikhlutanum. Skömmu síðar fékk Bryndís Guðmundsdóttir sína fjórðu villu í liði Keflavíkur en hún átti sér ekki viðreisnar von í kvöld og var lengi frá sökum villuvandræða sinna og reyndist það Keflvíkingum dýrkeypt að geta ekki nýtt hennar krafta. Staðan að loknum þriðja leikhluta var 61-55 Haukum í vil.
Unnur Tara Jónsdóttir átti glimrandi lokaleikhluta fyrir Hauka í kvöld en hún hrifsaði til sín fjöldan allan af sóknarfráköstum og var dugleg að hreyfa sig án boltans svo bakverðir Hauka áttu ekki í neinum vandræðum með að finna hana opna undir Keflavíkurkörfunni. Sóknarleikur Keflavíkur fór á kafla allur í gegnum Maríu Ben Erlingsdóttur og gaf það vel en svo hættu Keflvíkingar að leita að henni í teignum sem reyndist þeim dýrkeypt því aðrir leikmenn liðsins voru ískaldir í snið-,teig- og þriggja stiga skotum í kvöld.
Haukar gerðu vel í 4. leikhluta að halda Keflavík frá sér og höfðu að lokum nokkuð öruggan 87-78 sigur en leikurinn í heild var góð skemmtun og verða næstu leikir liðanna ekkert síðri svo það er um að gera að fjölmenna í Sláturhúsið á laugardag kl. 16:00.
Atkvæðamest í liði Keflavíkur í kvöld var TaKesha Watson með 33 stig en hún var sterk á vítalínunni í kvöld og hitt úr 17 af 19 vítaskotum sínum. Birna Valgarðsdóttir gerði 13 stig í leiknum en Keflavíkurliðið átti hræðilegan dag við þriggja stiga línuna þar sem þær tóku 16 skot en ekkert þeirra komst í gegnum körfuhringinn. jbo@vf.is