Fréttir

Karfa: Karlar | 23. apríl 2010

Tap í Hólminum

Keflvíkingar töpuðu stórt í Hólminum í kvöld, en lokatölur leiksins voru 91-69. Keflvíkingar voru ekki mættir í Hólminn til að spila körfubolta og má guð vita hvar hausinn á þeim var í kvöld. Næsti leikur fer fram í Keflavík á laugardaginn klukkan 16:00 og kemur ekkert annað en sigur til greina í þeim leik. Heimasíðan karfan.is gerði mjög góð skil á leiknum í kvöld, og vísar greinarhöfundur í þeirra grein sökum tímaskorts:

 
Mikið var um að vera hjá Hólmurum í dag þar sem Jeb Ivey var í háloftunum á leiðinni í allan dag. Lending á Stykkishólmsflugvelli 18:21 og kominn í rauðan búning 18:40 og mun þetta vera í fyrsta sinn sem lið skiptir um leikmann í lokaviðureign úrslita. Þröstur Leó var ekki í liði Keflavíkur sökum meiðsla og var Sævar Eyjólfsson kominn í hans stað. Skemmst er frá því að segja að Snæfell hafði öruggan sigur í leiknum, 91-69 og því er staðan jöfn í einvíginu, 1-1.
Snæfell kom með bombu í fyrri hálfleik og leiddu 54-35. Talandi um kennslustund í Keflavík í fyrsta leik þá hljóta Snæfellsmenn að hafa lært slatta þar sem gríðalega öflugt Snæfellslið mætti á sinn heimavöll í kvöld og tók 91-69 sigur og jöfnuðu einvígið 1-1 og langþráður heimavallasigur loksins orðinn að veruleika hjá Hólmurum.
 
Eftir um 2 mín. leik fór boltinn að rúlla í netið og settu Sigurður Þorvalds og Hörður Axel sinn þristinn hvorn fyrir liðin. Meðbyr Snæfells var meiri framan fyrsta hluta þar sem menn voru að spila þéttari vörn og meira tilbúnir í leikinn þar sem ekki sakaði monster troðsla Hlyns Bæringssonar og þristar frá Sigurði og Martins. Snæfell fóru svo að spila villtari sóknir sem gaf þeim lítið annað en tapaða bolta og færðu Keflvíkingar það sér ekki í nyt og Snæfell leiddi samt þar sem vörn þeirra var í lagi og kom Jeb Ivey klár í slaginn með góða vörn á Hörð Axel sem þurfti að hafa góðar gætur á. Snæfell leiddi 24-18 eftir fyrsta hluta.
 
Keflavík gerðu sig líklega til að halda uppi jöfnum leik og voru að narta í hælana í stöðunni 24-23 þegar Snæfell tók á rás og gerði 13 – 0 áhlaup þar sem meðal annars kom þristur frá Sigurði Þorvalds og stolinn bolti og tvö stig frá Ivey strax á eftir, en Guðjón Skúlason tók þá leikhlé til að reyna að átta sig á hlutunum. Brotið var á Sigurði Þorvalds í þrist og setti hann öll stigin niður þar sem staðan varð 40-23 fyrir Snæfell og Snæfell komst svo í 43-23 áður en Urule hjá Keflavík kom boltanum niður eftir 17-0 áhlaup Snæfells. Snæfell leiddi svo í hálfleik 54-35.
 
Atkvæðamestu menn í liði Snæfell voru Sigurður Þorvalds með 21 stig og setti niður 4 af 5 þristum. Hlynur var öflugur undir körfunni með 9 stig og 11 fráköst eða jafnmörg og Keflavíkurliðið. Martins Berkis var kominn með 13 stig. Hjá Keflavík voru, Gunnar Einars með 9 stig og Draelon Burns með 8 stig, stigahæstir. Þar á eftir kom Hörður Axel með 7 stig og Urule með 6 stig.
 
Keflvíkingar reyndu hvað þeir gátu í upphafi þriðja leikhluta að ýta frá sér en varð lítið ágengt, þar sem Snæfell hélt sinni c.a 20 stiga forystu. Þriðji hluti spilaðist jafnt framan af þó Snæfell hefði undirtökin í leiknum og leiddu 74-48.
 
Guðjón Skúlason fékk tæknivillu á milli þriðja og fjórða leikhluta og kláraði Jeb Ivey tvö stig á vítalínunni í upphafi lokafjórðungsins. Hjá báðum liðum voru leikmenn nr 11 komnir með fjórar villur þeir Sigurður Þorvalds og Urule Igbavbova. Snæfell voru 20 stigum yfir 76-56 og héldu haus á meðan Keflavík reyndi hin ýmsu varnartilbrigði m.a pressu sem gekk illa upp.
 
Jón Nordal fékk á sig óíþróttamannslega villu eftir misheppnað innkast og voru Keflvíkingar gjörólíkt lið frá því í fyrsta leiknum. Jeb Ivey kom Snæfelli 88-58 og 30 stiga múrinn var rofinn í leiknum. Snæfell hafði sigur 91-69. Hörkurimma tveggja liða sem sína allt sitt besta í tveimur leikjum en eins og svart og hvítt í leikjunum tveimur og er þetta líklega ekki línan sem verður leikið eftir í einvíginu.
 
Sigurður Þorvaldsson var stigahæstur með 29 stig og Martins Berkis með 16 stig. Hlynur Bæringsson var með 13 stig, 16 fráköst og 6 stoðs. Jeb Ivey kom inn í liðið ekki eins og hann hafi verið á ferðalagi í c.a 40 tíma. Ivey setti niður 13 stig og 4 stoðsendingar og spilaði hörkuvörn. Pálmi kom sterkur í leikstjórnandann og gaf 8 stoðsendingar.
 
Hjá Keflvíkingum var Urule Igbavboa með 15 stig og 6 fráköst. Gunnar Einars var með 14 stig líkt og Sigurður Þorsteinsson. Hörður Axel var með 11 stig og átti erfitt uppdráttar með Jeb Ivey en gaf 7 stoðsendingar að auki.