Tap í Seljaskóla - oddaleikur á miðvikudag
Keflvíkingar áttu færi á að tryggja sæti í 4-liða úrslitum Iceland Express deildar karla þegar þeir mættu í Seljaskólann í kvöld. Fyrir leikinn voru margir gárungar sem spáðu Keflvíkingum öruggum sigri, en annað kom á daginn. Keflvíkingar voru teknir í kennslustund af sprækum ÍR-ingum og lokatölur leiksins 106-89.
ÍR-ingar komu dýrvitlausir til leiks og náðu 9-0 forystu. Vörnin hjá Keflavík var engin og auðvelt fyrir ÍR-inga að gera auðveldar körfur. Þeir héldu áfram uppteknum hætti, þrátt fyrir að Keflvíkingar hafi náð að setja niður nokkrar körfur. Staðan 31-13 eftir 1. leikhluta. Keflvíkingar tóku sig saman í andlitinu og þéttu vörnina verulega í öðrum leikhluta. Þeir náðu jafnt og þétt að saxa á forskotið og staðan í hálfleik var 49-46.
Í 3. leikhluta virtist Keflavík ætla að hætta sinni lautarferð í leiknum og tók flotta rispu. Þeir náðu að komast yfir í fyrsta sinn í leiknum og settu stöðuna í 54-58. Þegar þarna var komið við sögu, virtust ÍR-ingar við það að brotna og ætla að missa leikinn frá sér. Þeir blésu það frá sér með því að taka 12-0 kafla í leiknum og allt í einu var staðan orðin 66-58. Þarna kom vendipunktur leiksins og eftir þetta voru Keflvíkingar alltaf að elta, en án árangurs. Skotin voru engan veginn að detta niður á meðan allt lék á alls oddi hjá ÍR. Kelly Biedler var erfiður viðureignar og varði skot í teignum eins og að drekka vatn. Heilt á litið var mikið andleysi yfir Keflavíkurliðinu með vænni slettu af lélegum varnarleik, fyrir utan nokkra kafla þar sem þeir virtust ætla að taka leikinn í sínar hendur. Um leið og ÍR-ingar svöruðu hressilega fyrir sig, þá féll spilið allt um koll.
Sigurður Gunnar Þorsteinsson átti flottan leik í kvöld. Hann skoraði 27 stig og hirti 10 fráköst. Magnús Þór Gunnarsson skoraði 19, Hörður Axel 15 og Thomas Sanders 9.
Þá er ljóst að oddaleik þarf í viðureign liðanna. Sá leikur verður háður á miðvikudaginn næstkomandi kl. 19:15. Nú er að duga eða drepast fyrir bæði lið og Keflavík þarf á ÞÍNUM stuðning að halda! Fjölmennum í Sláturhúsið og hjálpum strákunum að komast áfram í 4-liða úrslitin!
Áfram Keflavík!