Þéttur sigur á KFÍ fyrir vestan
Keflvíkingar unnu góðan útisigur á liði KFÍ í gær 105-90 og er óhætt segja að sigurinn hafi verið frekar öruggur þar sem okkar menn virtust hafa tak á leiknum allan tímann.
Jafnt var á með liðunum framan af 1. leikhluta og þegar tæp mínúta var eftir af honum var staðan 16-15 fyrir Keflavík. Okkar menn settu síðan tvær síðustu körfur leikhlutans og Lazar slúttaði honum reyndar með troðslu 20-15. Eftir þetta fór munurinn á liðunum aldrei niður fyrir fimm stig og var lengst af leiks þetta 10-12 stig. Þó heimamenn næðu að klóra í bakkann á köflum og minnka muninn, þá fylgdi yfirleitt áhlaup frá Keflvíkingum í kjölfarið þar sem þeir juku forskotið á nýjan leik.
Ísafjarðartröllið Sigurður Gunnar Þorsteinsson naut sín vel á æskuslóðunum og var klárlega maður leiksins með 28 stig og 14 fráköst. Nýting hans í teignum var góð (72%) og hann var með 37 í framlag fyrir leikinn sem er glimrandi gott.
Lazar átti traustann leik að venju og setti 24 stig, 10 fráköst og 3 stoðsendingar. Mikill fengur fyrir liðið þessi piltur af Balkanskaganum.
Aðrir leikmenn sem komust á blað voru: Tino, 22 stig, Hörður Axel, 15 stig (6 frk. og 6 stoð.), Gunni Einars, 6 stig (4 stoð.), Þröstur 4 stig, Jonni 3 stig og Gunni Stef. 3 stig. Almar og Sigmar léku einnig en komust ekki á blað.
Hjá heimamönnum voru stigahæstir þeir Carl 21 stig (8 frk), Nebosja 18 stig (5 frk.), Hugh 15 stig (16 frk) og Craig 14 stig (9 frk, 9 stoð. 3 st).
Hægt var að horfa á leikinn í beinni á netinu í gegn um heimasíðu KFÍ og var útsendingin hnökralaus og til mikillar fyrirmyndar hjá þeim hjá þeim heimamönnum. Eiga þeir hrós skilið fyrir framtakið.
NÆSTI LEIKUR karlaliðs Keflvíkinga verður n.k. sunnudag, 5. des. í Powerade bikarnum þegar lið Tindastóls heimsækir Toyota höllina í 16 liða úrslitum kl. 19.15. Kvennaliðið leikur sama dag í sömu keppni á útivelli gegn liði Fjölnis og hefst þeirra leikur kl. 16.00.
Næstir leikur í yngri flokkum félagsins verður síðan í kvöld, mánudag , þegar UMFN sækir Keflavík heim í Unglingaflokki kvenna. Leikurinn hefst kl. 18.30 og fer fram í Toyota höllinni.
Ísafjarðartröllið lék vel og var eins og heima hjá sér