Fréttir

Körfubolti | 14. september 2003

Þjálfaraskipti hjá Keflavík

Hinn farsæli þjálfari til þrettán ára, Sigurður Ingimundarson, lætur nú af störfum sem þjálfari af persónulegum ástæðum. Sigurður telur að hann geti ekki lengur sinnt þjálfuninni af fullum krafti og þá sé skynsamlegra að stiga til hliðar. Stjórn körfuknattleiksdeildarinnar hefur rætt þessi mál gaumgæfilega við Sigurð og ljóst er að nú er komið að endalokum þessa frábærra samstarfs Sigurðar og Keflavíkur, í bili að minnsta kosti.

Sigurður þjálfaði meistaraflokk kvenna í fimm ár og síðan meistaraflokk karla í sjö ár. Núverandi leiktíð hefði verið hans áttunda. Slíkt langtímasamband við þjálfara er afar sjaldgæft yfirhöfuð, þó ekki í Keflavík, enda var fyrirrennari Sigurðar, Jón Kr. Gíslason, þjálfari meistaraflokks karla í sex ár. 

Undir stjórn Sigurðar varð kvennaliðið fjórum sinnum Íslandsmeistari og fjórum sinnum Bikarmeistari og karlaliðið varð þrisvar Íslandsmeistari, tvisvar Bikarmeistari og fjórum sinnum Kjörísmeistari. Í dag er félagið, sem kunnugt er, Íslands-, Bikar- og Kjörísmeistari.

Þjálfaraferill Sigurðar er einkar glæsilegur og mikill sjónarsviptir er að kappanum. En ekkert varir endalaust og því þarf stjórn deildarinar að takast á við þetta óvænta brotthvarf Sigurðar og finna hæfan mann í staðinn.

Mikið fjör verður á komandi leiktíð, eins og margir vita. Fyrir utan að verja alla titlana, þá er framundan þátttaka í Bikarkeppni Evrópu í riðli með tveimur liðum frá Portúgal og einu frönsku. Nóg verður því að gera fyrir nýjan þjálfara.

Stjórnin hefur farið yfir stöðuna á undanförnum dögum og stefnir að því að ganga frá ráðningu nýs þjálfara í dag, sunnudag.