Þriðji leikur Keflavíkur og KR í kvöld - Grillum okkur í gang í góða veðrinu
Keflavíkurstúlkur taka á móti KR í þriðja leik úrslitaseríu Domino´s deildar kvenna í Toyotahöllinni í kvöld en leikurinn hefst kl. 19.15. Einvígið er jafnt, 1-1, og mikilvægt að sigurinn í kvöld falli Keflavíkurmegin. Grillin verða sett í gang um kl. 17.30 og fylgir gos og meðlæti með. Um að gera er fyrir fólk að mæta snemma en hamborgararnir hafa verið gríðarlega vinsælir undanfarið og er það mál manna að þar sé einstökum grillhæfileikum Ólafs Ásmundssonar helst að þakka. Svo góðir eru hamborgararnir að önnur lið eru þegar farin að bera víurnar í Ólaf, sem neitað hefur öllum gylliboðum.
Bekkirnir sem eru í efri stúku verða áfram niðri og eru Keflvíkingar hvattir til að fjölmenna í neðri stúku og þétta þannig stemmningshjúpinn í kringum stúlkurnar. Þær eru að standa sig með mikilli prýði, eru ungar og framsæknar en þurfa þó á stuðningi okkar að halda.
Mynd: Myndin sem prýðir þessa frétt er fengin að láni af vef RÚV en hún sýnir stúlkurnar hampa bikarmeistaratitlinum í febrúar. Svona stundir lifa um aldur og ævi og það er í okkar höndum að hjálpa stúlkunum að bæta fleiri minningum og bikurum í safnið!
Látum okkur ekki vanta og styðjum stelpurnar til sigurs - ÁFRAM KEFLAVÍK