Þröstur Leó er tilbúinn í lokaprófið
Keflvíkingar mæta Stjörnunni í þriðja sinn á þremur árum í 8-liða úrslitum Domino´s deildar karla en fyrsti leikurinn er föstudaginn nk. í TM-Höllinni. Nokkur munur var á liðunum í vetur en þó er ljóst að um erfiða seríu verður að ræða fyrir Keflvíkinga þó heimavöllurinn sé auðvitað mikilvægur. Talsverð meiðsli voru í herbúðum Stjörnumanna í vetur en undir það síðasta var í fyrsta skipti sem þeir höfðu úr öllum hópnum að moða. Keflvíkingar hafa svo sem ekki farið varhluta af meiðslum en Magnús Þór Gunnarsson var frá mikið og lék aðeins 8 leiki á tímabilinu og þá meiddist Gunnar Ólafsson einnig undir lok tímabilsins. Báðir eru þeir þó að jafna sig. Þá er ljóst að Þröstur Leó Jóhannsson er óðum að komast í sitt besta form og hefur verið gaman að fylgjast með kappanum í undanförnum leikjum. Ætli Keflvíkingar sér sigur í seríunni við Stjörnuna mun Þröstur þurfa að spila vel en við heyrðum í kappanum í dag og bárum undir hann nokkur atriði.
Jæja, hvernig gengur undirbúningurinn fyrir fyrsta leikinn gegn Stjörnunni?
Það gengur allt sinn vanagang. Einbeitingin snýr að okkar leik og hvernig við ætlum að mæta tilbúnir til leiks. Það er hugur í hópnum og örlar einnig á tilhlökkun í mönnum.
Mega stuðningsmenn Keflavíkur búast við ykkur tilbúnum í fyrsta leik?
Að sjálfsögðu, við sem lið eigum að vera tilbúnir í svona leiki og setjum þá kröfu á okkur sjálfa svo það er ekki neitt minna sem stuðningsmenn eiga að búast við.
Er eitthvað sérstakt sem Keflavík ber að varast í leik Stjörnunnar?
Barátta þeirra. Þeir hafa góða leikmenn sem leggja sig alla fram fyrir liðið. Við þurfum að gera slíkt hið sama.
Aðeins að þér persónulega, þú hefur verið að koma sterkur inn að undanförnu og ert kominn í gott form - ertu tilbúinn fyrir átökin og mega stuðningsmenn búast við meiru af þér nú þegar úrslitakeppnin er að byrja?
Þetta er búinn að vera virkilega skemmtilegur vetur fyrir mig þar sem ég hef verið í fjórum mismunandi hlutverkum á vellinum og lært heilan helling um körfubolta. En núna er glósubókin sett á hilluna og komið að lokaprófi. Ég er tilbúinn í átök og held að þau séu á leiðinni núna í fyrstu seríu. Nú hefst hátíð körfuboltamanna og þá fara menn í sitt fínasta púss og sýna sínar bestu hliðar.
Hvaða skilaboð ertu með til stuðningsmanna fyrir seríuna við Stjörnuna?
Þú getur mætt á föstudaginn og upplifað þvílíka stemmningu, skemmtun og tilþrif. Það er ekki aukasýning og það er ekki hægt að fá tilfinninguna sitjandi í sófanum að horfa á fréttir daginn eftir. Mikilvægast af öllu er þó hlutverkið sem ÞÚ, kæri stuðningsmaður, spilar í leikjum sem þessum. Þinn áhugi og stuðningur smitast inn á völlinn og gefur leikmönnum aukinn kraft. Hvernig það virkar veit ég ekki en ég veit að það virkar.