Tíu í röð en ekki hættar - "Ætlum að halda áfram að bæta okkur"
Keflavík sigraði KR 80-73 í Domino´s deild kvenna í Toyotahöllinni í gærkvöldi. Var þetta tíundi sigurleikur liðsins í röð en Keflavíkurstúlkur virðast ekkert vera á þeim buxunum að tapa leik. Stórkostleg skemmtun er að fylgjast með liðinu en þar skín gleði í bland við einbeitingu úr hverju andliti. Heimastúlkur voru með yfirhöndina frá fyrstu mínútu í gær og voru mestan part leiksins með nokkuð þægilega forystu. Í lokin virtist þó grípa um sig eitthvað kæruleysi og leit um tíma út fyrir að KR ætlaði að sigla fram úr en Keflavík stóðst áhlaupið og fagnaði sigri.
Jessica Jenkins fór mikinn í liði Keflavíkurstúlkna og skoraði 29 stig og hirti 9 fráköst en næst á eftir henni var Sara Rún Hinriksdóttir með 21 stig og 5 fráköst. Bryndís Guðmundsdóttir átti einnig fínan leik en hún endaði næstum því með "tvennu" í leiknum, 8 stig og 8 fráköst. Hún var nokkuð sátt í leikslok; Ég var mjög ánægð með fyrri hálfleikinn hjá okkur, við spiluðum saman og allir rosa glaðir. Ég veit ekki alveg hvað gerðist þarna í seinni hálfleik, því það var eins og við værum að bíða eftir að KR myndi spila betur! En við unnum og það er það sem skiptir máli
Nú eru þið með 10 sigra í 10 leikjum, bjóstu við þessu fyrir mót í fullri hreinskilni?
Já, afhverju ekki? Við erum með mjög góðan hóp. Ég bjóst kannski ekki við því að við myndum vinna fyrstu leikina svona stórt eins og við vorum að gera. Þegar liðið spilar saman sem ein heild þá mundi ég ekki vilja mæta okkur.
Nú lékstu með KR á síðasta tímabili er ekki gott að vera komin heim?
Jú, frábært að vera komin heim aftur. Báðir þessir klúbbar eru mjög flottir í heild sinni en heima er alltaf best.
Þú varst mikið meidd á síðasta tímabili en hefur verið að komast í gang aftur, hvernig er staðan á þér núna?
Staðan er bara allt í lagi. Ég get spilað og æft og á meðan reyni ég að spá ekki mikið í því hvað er að angra mig.
Hvernig verður framhaldið hjá Keflavíkurstúlkum?
Halda áfram að bæta okkur sem lið, taka einn leik í einu og verða betri. Enda sem Íslands og bikarmeistarar.
Mynd: Sandra Lind Þrastardóttir að gera sig líklega að til að skora í leiknum gegn KR. Myndina tók RAX þeirra á karfan.is, Skúli "OldSchool" Sigurðsson.