TM-Höllin komin í búninginn - Grillin verða tendruð fyrir leikinn gegn KFÍ á föstudag
Körfuknattleiksddeild Keflavíkur og TM undirrituðu á dögunum samstarfssamning líkt og áður hefur komið fram en samkvæmt samningi mun heimavöllur liðsins að Sunnubraut 34 í Keflavík hér eftir bera nafnið TM-Höllin. Þeir sem hafa lagt leið sína í íþróttahúsið hafa tekið eftir því að búið er að merkja það TM en af því tilefni þótti rétt að smella mynd af nokkrum leikmönnum Keflavíkurliðanna ásamt stjórnarmanni KKDK og Gunnari Oddssyni frá TM.
TM er stolt af því að geta stutt við bakið á góðu starfi hjá körfuknattleiksdeild Keflavíkur og sett nafn sitt við heimavöll liðsins, segir í tilkynningu frá tryggingafélaginu.
Nú er undirbúningsmótum í körfuboltanum lokið en karlalið Keflavíkur stóð uppi sem sigurvegari í Lengjubikar KKÍ eftir sigur á KR og þá sigruðu Keflavíkurstúlkur leikinn um „meistara meistaranna“ gegn Val. Domino's deild karla og kvenna eru farnar af stað og hafa stúlkurnar þegar unnið fyrstu tvo heimaleikina í ný merktri TM-Höllinni. Fyrsti heimaleikur karlaliðs Keflavíkur er hins vegar föstudaginn 18. október gegn KFÍ.
Körfuknattleiksdeilin verður með glóðargrillaða hamborgara fyrir leikinn gegn KFÍ á föstudag líkt og alla heimaleiki liðsins í vetur þar sem hægt verður að fá borgara, gos og snakk á aðeins 1000 kr. Eru allir stuðningsmenn og gestir hvattir til að kíkja við og bragða á góðmetinu. Grillin verða tendruð upp úr 18.00!