Toppslagurinn í TM-Höllinni á mánudag - stutt viðtal við Almar
Á morgun, mánudaginn 18. nóvember, mætast Keflavík og KR í toppslag Domino´s deildar karla en leikurinn fer fram í TM-Höllinni. Bæði lið eru ósigruð á toppi deildarinnar og því ljóst að aðeins annað liðið mun verma toppsætið að honum loknum. Keflvíkingar mættu Skallagrími í Borganesi í síðasta leik og unnu auðveldan tæplega 30 stiga sigur eftir nokkuð brösugan fyrri hálfleik. Segja má að um formsatriði hafi verið að ræða í þeim leik enda lið Skallagríms án erlends leikmanns auk þess sem Páll Axel Vilbergsson lék ekki. Almar Stefán Guðbrandsson átti flotta innkomu í leiknum og skoraði 6 stig og tók 6 fráköst á þeim 13 mínútum sem hann lék. Hann kvað sigurinn hafa verið góðan þó liðið hefði nú mátt gera mun betur.
Eiga menn erfitt með að gíra sig upp í leiki gegn lakari liðum deildarinnar?
Já og nei, menn þurfa að passa sig og koma vel stemmdir í alla leiki sama hver mótherjinn er.
Næsti leikur er hörkuleikur gegn KR, hvernig lýst þér á þá viðureign?
Þetta er flottur toppslagur, bæði lið búin að byrja mótið vel og efast ég ekki um að þetta verði hörku leikur.
Hvað þarf Keflavík að gera til að fara með sigur af hólmi þar?
Það er ekki flókið, spila okkar bolta, mæta tilbúnir og vinna hlutina saman
Hvernig er staðan á þér persónulega, vilt væntanlega spila meira en nýttir nú vel sjensinn gegn Skallagrími með 6 stig og 6 fráköst?
Staðan á mér er góð, hef fengið góða "hvíld" í síðustu leikjum þannig að ég er klár. Nýtti sénsinn vel gegn Skallagrími og vonandi að það skili mér fleiri mínutum í næstu leikjum.
Einhver skilaboð að lokum fyrir leikinn?
Ekkert rugl, ekkert kjaftæði - sé ykkur á Keflavík-KR
Minnum á að grillin verða tendruð um kl. 18.00 við TM-Höllina og er fólk hvatt til að mæta snemma til að næla sér í borgara. Það er enda ekkert betra en að skófla í sig einum glóðargrilluðum með gosi frá Ölgerðinni fyrir spennnandi körfuboltaleik.