Fréttir

Karfa: Karlar | 28. mars 2010

Tvö met hjá Gunna Einars skömmum tíma

Gunnar Einarsson setti ekki aðeins met yfir flesta spilaða leiki fyrir Keflavík í körfubolta þann 18. mars síðastliðinn, heldur komst hann í efsta sætið yfir flesta spilaða sigurleiki í úrslitakeppni í 1. leiknum gegn Tindastól. Tölfræði-kóngurinn Óskar Ófeigur Jónsson skrifar um þetta á visir.is:.

Keflvíkingurinn Gunnar Einarsson er einn sigursælasti körfuboltamaður Íslands þegar kemur að unnum Íslandsmeistaratitlum en eftir fimmtudagkvöldið er hann kominn í efsta sætið yfir flesta spilaða sigurleiki í úrslitakeppni. Gunnar átti fínan leik þegar Keflavík vann 94-75 sigur á Tindastól og komst þar með 1-0 yfir í einvíginu þar sem þarf tvo sigra til þess að tryggja sig inn í undanúrslitin.

Gunnar hefur nú verið í sigurliði í 80 af 124 leikjum sínum í úrslitakeppni sem gerir 64,5 prósent sigurhlutfall. Lið hans hefur unnið 28 af 37 leikjum í átta liða úrslitum (76 prósent), 32 af 56 leikjum í undanúrslitum (57 prósent) og 20 af 31 leik í lokaúrslitum (65 prósent). Gunnar hefur meðal annars leikið þrettán oddaleiki á ferlinum og verið í sigurliði í átta þeirra.

Gunnar var með 18 stig og 73 prósent skotnýtingu á þeim rúmum 24 mínútum sem hann spilaði en hann gaf tóninn með því að skora átta stig strax í fyrsta leikhlutanum. Gunnar hefur alls skorað 847 stig í þessum 124 leikjum sem gerir 6,8 stig að meðaltali í leik.

Gunnar var fyrir leikinn jafn þjálfara sínum Guðjóni Skúlasyni sem var í sigurliði í 79 af þeim 133 leikjum sem hann spilaði í úrslitakeppninni á sínum tíma.

Teitur Örlygsson er í þriðja sætinu á þessum lista með 78 sigra í 115 leikjum en hann er eini leikmaðurinn sem hefur unnið Íslandsmeistaratitilinn tíu sinnum eftir úrslitakeppni. Gunnar hefur unnið sex Íslandsmeistaratitla sem leikmaður alveg eins og Guðjón Skúlason.

Gunnar bætti annað met þjálfara síns á dögunum þegar hann varð sá leikmaður Keflavíkur sem hefur spilað flesta meistaraflokksleiki og samkvæmt þekktum talnaspekingi í Keflavík þá er engin ástæða til annars en að búast við því að Gunnar bæti það met mikið í næstu framtíð að það standi mjög lengi. Það er heldur ekki líklegt að margir leikmenn til viðbótar nái því að spila 80 sigurleiki í úrslitakeppni en til að setja þá tölu í samhengi þá þarf að vinna átta leiki í einni úrslitakeppni til þess að vinna Íslandsmeistaratitilinn.

mynd