Fréttir

Körfubolti | 1. desember 2005

Umfjöllun um Þórsleikinn

Hann var frekar slitróttur, leikur Keflavíkurliðsins, í kvöld gegn Norðanmönnum úr Þór. Fyrri hálfleikur var arfaslakur á báða bóga og ekkert gekk upp í sóknarleik liðanna. Staðan 36-31. Keflavík skoraði aðeins 10 stig í öðrum leikhluta og virtust menn fara fram úr sér við að keyra upp hraðann eingöngu til að kasta boltanum frá sér hratt og örugglega. En maður átti nú von á því að eitthvað myndi liðið hressast í seinni hálfleik.

Og í byrjun seinni hálfleik lék Keflavík stífa vörn og reyndi að opna leikinn upp þannig. Vörnin var á stundum prýðileg, en sóknarleikurinn lét lengi á sér standa. Menn tóku ekki góð skot og voru einhvern veginn ekki í takt, kerfin ekki látin rúlla og of mikið af þröngvuðum sóknartilburðum. Enda var skotnýtingin eftir því, alls rötuðu eingöngu 29 skot rétta leið úr 81 tilraun (!) sem jafngildir um 36% hittni.

Hvað um það, Keflavíkurliðið náði þó tveimur stuttum sprettum í seinni hálfleik, einum í þriðja og öðrum í fjórða leikhluta, en þessir sprettir byggðu á góðri vörn, stolnum boltum og skynsömum hraðupphlaupum, oftar en ekki með AJ eða Jonna fremsta í flokki. Seinni hálfleikurinn fór 47-30 og lokatölurnar voru 83-61, þægilegur 22ja sigur í höfn. Eins og sjá má á tölunum var vörnin ágæt lengstum, en sóknarleikurinn sundurleitur og ómarkviss. Það spillir líka fyrir liðinu að geta ekki stöðugt leitað inn í teig, en Zlatko náði sér ekki á strik og var enginn ógn í teignum, gerði aðeins 5 stig.

Jonni var sprækur, 9 st, 7 frák, en eins og oft áður, finnst manni að hann geti skorað nánast þegar hann langar til, en hann er full passívur í sókninni. AJ var afar öflugur, með 30 st og 10 fráköst. En auk AJ var Dóri besti maður liðsins, barðist vel og skilaði ágætu dagsverki, 9 st, 7 frák, 4 stolnir og 3 blokk. Arnar Freyr, Gunni og Maggi Gunn komust aldrei úr öðrum gírnum og hittu aðeins úr 6 af 26 skotum sínum.

Þórsarar börðust í vörninni og reyndu hvað þeir gátu, liðið er hins vegar ekki sterkt og veruleg blóðtaka fyrir þá að missa Óðinn, besta manninn, úr liðinu vegna meiðsla allt tímabilið. Magnús er prýðileg skytta, en á það til að týnast. Þeir munu þurfa að berjast verulega fyrir veru sinni í deildinni í ár.

Jæja, leikurinn var svo sem ekki mikið fyrir augað, en menn voru þó að berjast í vörninni, komust bara ekki í stuð. En 20 stiga sigur er ok, næsti leikur er á útivelli gegn Fjölni og svo kemur að stórleiknum í Evrópukeppninni þann 8. des, heimaleik gegn Madeira í 16-liða úrslitum. Við treystum því að skytturnar verði búnar að finna fjalirnar fyrir þann leik ....:)

ÁFRAM KEFLAVÍK!