Umfram væntingar hjá MB 11 ára drengjum
Um helgina fór fram 2.umferð á Íslandsmótinu hjá minnibolta 11 ára drengja en í 1 umferð náðu þeir að halda sér uppi í A riðli með einum vinnusigri eins og allir muna eftir. Spilaðir voru sem fyrr 4 leikir alls og að þessu sinni var keppt í Sjálandsskóla í Garðabæ.
Fyrsti leikur mótsins hjá okkar mönnum var gegn sterku liði KR og er skemmst frá því að segja að sá leikur spilaðist illa, en lokatölur urðu 21-47. Við áttum aldrei séns og var þetta í raun mjög góð áminning fyrir flestalla leikmenn liðsins sem voru á engan hátt tilbúnir í leikinn. En eftir langt og gott spjall eftir þennan slæma leik ákváðu menn að mæta tilbúnari og grimmari í næsta leik gegn hávöxnu liði heimamanna í Stjörnunni. Allt annað lið kom nú inn á völlinn og mátti sjá einbeitningu, baráttu og leikgleði hjá okkar mönnum allan tímann. Leikurinn var í járnum frá upphafi en við tókum öll völd á vellinum í byrjun 5. leikhluta og tryggðum okkur góðan og mjög svo sanngjarnan sigur 34-29. Það sem skóp þennan sigur var hrikalega góð vörn en við náðum að halda langbesta leikmanni þeirra (sem er c.a. 180 cm á hæð) í aðeins 9 stigum.
Fyrsti leikur sunnudagsins var gegn Grindavík og endaði leikurinn 38-26 en fyrir síðasta leikhluta var staðan 26-24 fyrir Keflavík. Þessi lið eru ekkert ósvipuð að getu en að þessu sinni voru það Keflvíkingar sem stóðu uppi sem sigurvegarar. Með sigri í þessum leik tryggðum við okkur áframhaldandi veru í A riðli og um leið náðum við markmiði okkar sem sett var eftir síðasta mót að sigra 2 leiki. Síðasti leikur okkar á mótinu var gegn nágrönnum okkar í Njarðvík en þeir hafa á að skipa léttleikandi og skemmtilegum leikmönnum. Njarðvík voru búnir að vinna 2 og tapa 1 líkt og við og voru leikmenn minnugir slakrar frammistöðu gegn þeim í síðasta móti. Okkar menn voru staðráðnir að gera sitt besta í þessum leik og voru þarna komnir með bullandi sjálfstraust. Og viti menn, við unnum 39-31 og vorum með yfirhöndina allan leikinn. Dómarar leiksins voru því miður alls ekki góðir og hallaði jafnt á bæði lið og fór það meira í skapið á Njarðvíkingum á meðan okkar leikmenn létu dómarana í friði, einbeittu sér að spila körfubolta og uppskáru að þessu sinni magnaðan sigur.
Frábær helgi að baki, 3 sigrar í A riðli og 2. sætið um helgina sem er framar björtustu vonum og geta leikmenn og foreldrar verið mjög stoltir eftir þessa helgi. Við þurfum ennþá að laga fullt af hlutum í okkar leik og vonandi er þetta bara byrjun á einhverju góðu en það sem skóp þessa sigra aðallega var góð varnarvinna og hörku barátta. Katla lék með peyjunum að þessu sinni og virtist það gefa strákunum smá blóðbragð í munninn um helgina. Allir stóðu sig vel og eru menn staðráðnir í því að halda áfram að bæta sig.
Úrslit leikja:
Keflavík – KR 21 – 47
Keflavík – Stjarnan 34 – 29
Keflavík – Grindavík 38 – 26
Keflavík – Njarðvík 39 – 31
Heildarskor: 132 - 133 (12/42 víti alls 28,6 %)
Þorbjörn 32 - 4/16 víti
Arnór 21 - 1/6
Katla 18 - 0/2
Árni 14 - 4/8
Páll 10
Tumi 9 - 1/2
Þorbergur 8
Rafnar 7 - 1/4
Ingimundur 6
Davíð 4
Arnar 2 - 0/2
Magnús 1 - 1/2
Stefán 0
Kv.
Bjössi þjálfari